Home / Fréttir / Óljós málamiðlun um flótta- og farandfólk í leiðtogaráði ESB

Óljós málamiðlun um flótta- og farandfólk í leiðtogaráði ESB

Hættuför flótta- og farandfólks yfir Miðjarðarhaf.
Hættuför flótta- og farandfólks yfir Miðjarðarhaf.

Undir morgun föstudags 29. júní komst leiðtogaráð ESB-ríkjanna 28 að samkomulagi um hvernig standa skuli að mótttöku flótta- og farandfólks til Schengen-svæðisins. Texti samkomulagsins er í ýmsu tilliti óljós og framkvæmd þess ræðst að verulegu leyti af ákvörðun hvers ríkis fyrir sig.

Textinn dugði þó til að sátt náðist að lokum og sagði Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, glaður í bragði: „Ítalia er ekki lengur ein.“ Ráðherrann hafði í níu klukkustundir þrýst á að fá sjónarmið stjórnar sinnar í útlendingamálum samþykkt.

Í upphafi viðræðna leiðtoganna hafði ítalski forsætisráðherrann tilkynnt að hann mundi ekki skrifa undir neinn texta sem styddi ekki á skýran hátt kröfu sína um að dregin yrði skýr varnarlína á Miðjarðarhafi gagnvart Líbíu til að verndar Ítalíu gegn straumi ólöglegra hælisleitenda yfir hafið. Án undirskriftar ítalska forsætisráðherrans hefði blasað við djúpur ágreiningur innan ESB eftir að Ítalar höfðu í tvær vikur beitt hörku gegn skipum með hælisleitendur á leið til Ítalíu.

Eftir er að útfæra nánar einstaka þætti málamiðlunarinnar innan leiðtogaráðsins. Að því er stefnt að innan landamæra ESB verði komið á fót „skoðunarstöðvum“ fyrir það farand- og flóttafólk sem bjargað er nærri strönd Líbíu. Einstök ríki gætu síðan að eigin frumkvæði létt undir með Ítölum sem hafna því að frjáls félagasamtök starfræki miðstöðvar í landi sínu. Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Giuseppe Conte náðu þessari málamiðlun síðla kvölds fimmtudaginn 28. júní en í henni felst að þeir sem veitt er hæli dreifist síðan til annarra ESB-landa eftir því sem þau sjálf ákveða. Það er þessi „sameiginlega ábyrgð“ sem virðist hafa dugað ítalska forsætisráðherranum til að skrifa undir samkomulagið þótt hvorki hafi enn verið gengið frá ríkjalistanum, sem er lykillinn að því að unnt sé að framkvæma samkomulagið, né eftir hvaða reglum framkvæmdin verður.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði evrópska textann jákvæðan um leið og hún áréttaði að ekki væru allir á einu máli um allt innan ESB. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, og ráðamenn annarra ríkja í mið- og austurhluta álfunnar virtust sætta sig við textann af því að þar væri ekki gert ráð fyrir „skyldu-kvótum“ að því er varðaði dreifingu hælisleitenda á einstök ESB-lönd.

Þá komu ESB-ríkin sér saman um „brottfararmiðstöðvar“ utan landamæra ESB. Donald Trump, forseti leiðtogaráðsins, og ríki í Mið-Evrópu höfðu lagt fram tillögu um þær. Einnig er litið á þetta sem stuðning við málstað Ítala. Markmiðið er að safna fólki saman í Norður-Afríku frekar en í suðurhluta Evrópu sé því bjargað í lögsögu Líbíu eða á alþjóðlegri siglingaleið. Þetta er í samræmi við ákvæði hafréttarins sem segja að stefna skuli til öruggustu og nálægustu hafnar með þá sem bjargað er.

Í aðdraganda leiðtogaráðsfundarins lá fyrir að á honum mundi ráðast hvort sátt næðist innan þýsku ríkisstjórnarinnar um afgreiðslu á hælismálum. Líf ríkisstjórnar Angelu Merkel er í húfi sé ekki sátt milli kristilegu flokkanna CDU og CSU-flokksins í Bæjaralandi. Þingflokkar CDU og CSU hittast sunnudaginn 1. júlí og þar verður gert út um samstarf flokkanna í útlendingamálum.

Heimild: Le Figaro

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …