Home / Fréttir / Óljós framtíð Norðurskautsráðsins þegar Rússar láta af formennsku þar

Óljós framtíð Norðurskautsráðsins þegar Rússar láta af formennsku þar

Rússar létu af tveggja ára formennsku sinni í Norðurskautsráðinu fimmtudaginn 11. maí á fjarfundi háttsettra embættismanna. Norðmenn gegna nú formennsku í ráðinu til 2025. Starfsemi þess tók á sig nýja mynd eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Þá hættu hin sjö ríkin í ráðinu öllu samstarfi við rússnesk yfirvöld.

Þegar Rússar tóku við formennskunni af Íslendingum í Reykjavík fyrir tveimur árum voru samþykktar ályktanir og kynntar starfsáætlanir fyrir ráðið. Utanríkisráðherrar landanna komu saman og það birtust ljósmyndir frá viðburðinum. Ekkert slíkt var á döfinni í tilefni formannsskiptanna að þessu sinni.

Fulltrúar ríkjanna sjö sem unnu áfram saman undir merkjum ráðsins héldu áfram sumum verkefnum án Rússa. Framtíð ráðsins er engu að síður óljós enda telja norsk stjórnvöld ekki stjórnmálalegar forsendur fyrir samstarfi við Rússa innan þess.

Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 með þátttöku Bandaríkjanna, Kanada, Íslands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Rússlands. Þá eiga sex hópar frumbyggja aðild að starfi ráðsins og auk þess hafa mörg áheyrnarríki tengst því. Samstarfshugur skömmu eftir endalok kalda stríðsins einkenndi starf ráðsins í upphafi.

Í stofnskjölum ráðsins er að finna bann við að ræða hernaðarleg öryggismál á vettvangi þess. Talið var að slíkar umræður kynnu að skapa ágreining í ráðinu og spilla fyrir framgangi annarra sameiginlegra hagsmunamála. Hefur starfið á vettvangi ráðsins einkum snúist um umhverfis- og loftslagsmál, fiskveiðar, sjálfbærni og hlut frumbyggja.

Var gjarnan litið á ráðið sem fyrirmynd og til marks um að ríki gætu starfað saman þótt hagsmunir þeirra annars staðar í heiminum væru ólíkir. Jafnframt hefur verið litið á norðurslóðir sem „lágspennusvæði“ þegar litið er til hernaðarlegra þátta.

Frá innrásinni í Úkraínu hefur þó stundum þótt holur hljómur í slíkum yfirlýsingum. Þá telja æ fleiri fræðimenn að ekki séu lengur rök fyrir að líta á norðurslóðir sem einhverja undantekningu frá því sem gerist í geópólitískum samskiptum ríkja þar sem landfræði- og stjórnmálalegir hagsmunir þeirra ráða ferðinni.

Með aðild Finna og Svía að NATO verða allar þjóðir í Norðurskautsráðinu nema Rússar í NATO.

Af strandlengjunni við Norður-Íshaf falla 53% undir yfirráð Rússa og þar búa tvær milljónir manna af fjórum milljónum sem taldir eru búa á heimskautssvæðinu.

Án Rússa er Norðurskautsráðið svipur hjá sjón. Samstarf stjórnvalda ríkjanna sjö við þá er þó með öllu útilokað við núverandi aðstæður og um óljósa framtíð.

Eftir innrásina í febrúar 2022 hafa Rússar hallað sér að Kínverjum og fengið þá til liðs við sig til að nýta norðurslóðaauðlindir sínar.

Sérfræðingar benda á að Rússar hafi gjarnan litið á aðild sína að Norðurskautsráðinu sem mótvægi við sókn Kínverja inn á norðurslóðir. Hvað sem öðru líði sé það andstætt gamalgrónum viðhorfum Rússa að kasta slíku mótvægi frá sér, þeir vilji ekki fá Kínverja alveg inn á gafl.

Niðurstaða þeirra sem velta vöngum um framtíð Norðurskautsráðsins er að haldið verði áfram á sama hátt og undanfarna 14 mánuði, formlega starfi ráðið áfram en Rússar verði úti í kuldanum.

Í þessu felst að ráðherrafundum í ráðinu fækkar og þar með pólitískum yfirlýsingum, þess í stað verður áhersla lögð á sérfræðingahópa sem sinna rannsóknum á einstökum sviðum. Vísindamenn geti notað samstarfsleiðir ráðsins til að skiptast á upplýsingum á fræða- og rannsóknarsviðum sínum án tillits til vandræða á stjórnmálavettvangi.

 

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …