Frakkar fögnuðu því um jólin að verð á lítra af diesel-olíu fór víða niður fyrir 1 evru (142 kr.) í fyrsta sinn síðan sumarið 2009. Hér er verð á lítra af diesel 178,7 kr. hjá N1 þriðjudaginn 29. desember. Í Le Monde er 29. desember talið að eldsneytisverð í Frakklandi muni lækka frekar.
Til marks um að líkur séu á meiri lækkun nefnir blaðið að mánudaginn 28. desember hafi ríkisstjórn Sádí-Arabíu lagt fram frumvarp til fjárlaga sem geri ráð fyrir 26 dollara verði á tunnu árið 2016 miðað við 40 dollara núna.
Þá er einnig bent á að OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, hafi birt árlega skýrslu um þróun olíuverðs 23. desember og þar sé ekki reiknað með að verð á tunnu nái 100 dollurum (eins og í júní 2014) fyrr en í fyrsta lagi árið 2040.
Diesel-olía er vinsælasta eldsneytið á bíla í Frakklandi og er hún um 80% neyslunnar. Um jólin var verð á lítra 99,35 cent en vikuna fyrir jól var það 1,0018 evrur.
Olíuverð var síðast undir 1 evru í Frakklandi í júlí 2009. Hæst fór heimsmarkaðsverð á olíu í júní 2014, 115 dollara tunnan, nú, 29. desember, er verð á tunnu skráð 37 dollarar í London (Brent) og í New York (WTI).
Verðið lækkaði á árinu 2008 vegna fjármálakrísunnar. Nú er talið að það haldist lágt allt árið 2016 vegna mikils framboðs á hráolíu.Í skýrslu OPEC um verðþróunina er talið að tunnan verði seld á 70 dollara árið 2020 og nálgist 100 dollara árið 2040.
Bandaríska þingið samþykkti nýlega að aflétta banni við útflutningi á hráolíu frá Bandaríkjunum. Þar hefur olíu- og gasframleiðsla aukist mikið vegna vinnslu olíu úr setlögum og sandsteini víða um landið. Sumir spá samdrætti í þessari framleiðslu í Bandaríkjunum árið 2016. Hvað sem því líður telja sérfræðingar ekki líkur á að hann hefði áhrif á heimsmarkaðsverð á næstunni þar sem Íranir búa sig undir útflutning á hráolíu við afnám viðskiptabanns og þvingana. Þá hafa líkur á friði í Líbíu aukist og þar með meiri olíuvinnslu þar. Loks er líklegt að Sádar setji meira magn en áður á markað til að reyna að auka tekjur ríkisins og fylla upp í fjárlagagatið sem er risavaxið. Sjálfir búa þeir nú við helmingi hærra eldsneytisverð en áður vegna nýrra skatta.