
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hittir Vladimir Pútin Rússlandsforseta í Moskvu mánudaginn 7. febrúar í Moskvu og degi síðar, þriðjudaginn 9. febrúar, verður Macron í Kiev og ræðir við Zelenskíj forseta.
Frakkar ganga til forseta kosninga í apríl. Meðal frambjóðendanna í Frakklandi ríkir ekki einhugur um afstöðuna til umsáturs Rússa um Úkraínu. Hér verður stuðst við greiningu frönsku fréttastofunnar FRANCE 24 á ólíkum viðhorfum frambjóðendanna.
Jean-Luc Mélenchon, lengst til vinstri, dregur taum Rússa og heldur uppi vörnum fyrir stefnu þeirra gegn Úkraínu. Hann hvetur jafnframt til að dregið sé úr spennu en er ósammála Macron þegar kemur að því að staðinn skuli vörður á landamærum Úkraínu og Frakkar eigi að ábyrgjast þau, þeir eigi ekki að blanda sér í deilurnar auk þess Úkraínumenn sjálfir telji sér ekki ógnað.
Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðhreyfingarinnar, lengst til hægri, vill rækta sérstakt samband við ráðamenn í Moskvu. Kaup Frakka á rússnesku gasi og sameiginleg barátta Frakka og Rússa gegn íslamisma kalli á góð samskipti ráðamanna í París og Moskvu.
Éric Zemmour, forsetaframbjóðandinn sem skipar sér til hægri við Le Pen, tekur afdráttarlausast af skarið með Rússum. Hann heldur því fram að sagan sýni að Úkraína hafi alla tíð verið „hluti af keisaradæmi, hvort heldur rússnesku eða austurrísku“. Frakkar eigi að hafna sjónarmiðum Bandaríkjastjórnar vegna þess að kröfur Vladimirs Pútins væru „fullkomlega lögmætar“. Hann segir að losa eigi Rússa ungan öllum þvingunum. „Verði ég forseti, mun ég segja: „Burt með allar refsiaðgerðir gegn Rússum.““
Franska fréttastofan france24.com leitaði álits sagnfræðingsins Christians Delportes á afstöðu þessara þriggja frönsku jaðarflokka. Hann sagði að flokkarnir væru vissulega mjög samstiga í þessari afstöðu sinni vegna Úkraínu en tilgangur þeirra væri þó ólíkur. Afstaða Mélenchons mótaðist mest af andúð hans í garð Bandaríkjanna, Marine Le Pen og Éric Zemmour væru bæði þjóðernissinnar og hölluðust að valdboðsstjórnum. Leiðtogar hófsamari flokka sem styddu NATO styddu afstöðu Vesturlanda og vildu refsa Rússum.
Emmanuel Macron hefur margítrekað lýst stuðningi við Úkraínu. Þrátt fyrir að hafa lengi leitað eftir betri tengslum við Pútin, boðið honum til fundar í glæsisölum Versala og í sumarbústað franska forsetans í Brégançon, hefur afstaða Macrons í garð Pútins kólnað með hverju skrefi sem rússneski herinn tekur til að þrengja að Úkraínumönnum.
Macron boðaði 20. janúar að Frakkar mundu senda herlið til Rúmeníu til að treysta stöðu NATO. Fimm dögum síðar sagði Macron á blaðamannafundi að rússneskri innrás „yrði svarað“ og hún yrði „mjög dýrkeypt“. Engu að síður yrði að ræða við Rússa.
Valérie Pécresse, frambjóðandi mið-hægriflokksins, Lýðveldisflokksins, hefur lýst mjög svipaðri skoðun og Macron hefur. Flokkurinn leggur rækt við stefnu og störf Charles dr Gaulles og vill frið í Evrópu frá Atlantshafi að Úralfljóti. Hún vill einnig að rætt sé við Rússa, höfuðáherslan sé þó á friðhelgi landamæra Úkraínu. Öll brot gegn þeirri friðhelgi mundu leiða til refsiaðgerða verði ég forseti Frakklands, sagði Valérie Pécresse nýlega í sjónvarpsviðtali.
Anne Hidalgo, frambjóðandi Sósíalistaflokksins, styður einnig að ESB-ríkin sameinist um afstöðu vegna Úkraínu-deilunnar. Hún gagnrýnir ESB fyrir að láta ekki nóg að sér kveða.
Yannick Jadot, leiðtogi Græningja, gagnrýnir Macron fyrir að hafa aldrei farið til Úkraínu á fimm árum sínum sem forseti. Jadot vill að franski forsetinn noti pólitíska forystu sína í ESB til að skipuleggja leiðtogafund Evrópuþjóða í Kiev til að sýna samhug með Úkraínumönnum og lýðræði í landi þeirra. Hann vill einnig að Rússum sé ógnað og spilltum auðmönnum Rússlands refsað og umfram allt annað verði alræmda Nord Stream 2 gasleiðslan aldrei opnuð henni sé aðeins ætlað að draga mátt úr Úkraínumönnum minnka geópólitíska þýðingu lands þeirra.
„Rússland er einræðisríki, Pútin er einræðisherra. Við verðum að verja Úkraínu með diplómatískum aðferðum og með Evrópusambandinu. Ég hvet starfandi forseta Evrópusambandsins, Emmanuel Macron, að skipuleggja evrópskan leiðtogafund í Kiev,“ sagði Yannick, forsetaframbjóðandi franskra Græningja á Twitter miðvikudaginn 2. febrúar.
Sagnfræðingurinn Christian Delporte telur að ekki eigi að túlka ólík sjónarmið jaðarflokkanna annars vegar og hófsamari flokkanna hins vegar í ljósi mismunandi afstöðu flokkanna til ESB. Ólíku sjónarmiðin megi rekja til þess að sömu viðhorf og ríktu í kalda stríðinu séu að verða sífellt áhrifameiri og skipti ríkjum og flokkum í fylkingar.
Málum sé enn þannig háttað að Bandaríkjamenn séu á öðrum vængnum og Rússar á hinum. Stóra breytingin frá því sem áður var felist í að nú sé Kína komið fram á völlinn sem þriðja aflið. ESB skipti varla nokkru máli við núverandi aðstæður. Það sé ekkert undarlegt að afstaða franskra forsetaframbjóðenda ráðist af þessu endurvakta kalda stríðs viðhorfi.