Home / Fréttir / Öldungadeildarþingmenn sækja að Pompeo utanríkisráðherra

Öldungadeildarþingmenn sækja að Pompeo utanríkisráðherra

 

Mike Pompeo svarar spurningum öldungadeildarþingmanna.
Mike Pompeo svarar spurningum öldungadeildarþingmanna.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, minnti utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings miðvikudaginn 25. júlí á að ríkisstjórn Donalds Trumps forseta hefði gripið til margvíslegra refsiaðgerða gegn rússneskum stjórnvöldum. Skömmu áður en ráðherrann gekk fyrir nefndina afturkallaði Trump ákvörðun sína um að bjóða Vladimír Pútín Rússlandsforseta til Bandaríkjanna í haust.

Þingmenn vildu heyra frásögn utanríkisráðherrans af því sem sagt var á einkafundi Trumps með Pútín í Helsinki 16. júlí. Þeir spurðu til dæmis hvort Trump hefði boðið Pútín að draga úr refsiaðgerðum Bandaríkjamanna gegn Rússum. Þá vildu þeir vita hvað sagt var um hernaðarlega samvinnu í Sýrlandi eða framtíð Krímskaga sem Pútín innlimaði í mars 2014.

Utanríkisráðherrann sagði ekkert um efni samtals forsetanna í þriggja tíma samtali sínu við nefndarmenn sem stundum einkenndist af hörðum orðaskiptum.

Pompeo reiddist þegar fullyrt var að djúp gjá væri milli harðrar stefnu stjórnarinnar gegn Rússum og hlýðlegra orða sem Trump léti falla um Pútín.

„Þið slítið einhvern veginn tengslin milli aðgerða ríkisstjórnarinnar og þess sem forsetinn gerir. Þetta er eitt og hið sama,“ sagði utanríkisráðherrann.

Á nefndarfundinum viðurkenndi Pompeo að Norður-Kóreumenn héldu áfram að framleiða kjarnorkueldsneyti fyrir sprengjugerð sína þótt ríkisstjórnin láti eins og miði í rétta átt til kjarnorkuafvopnunar.

Um fund Trumps og Pútíns sagði Pompeo stuttlega: „Forsetar eiga rétt á að halda einkafundi.

Pompeo áréttaði að Bandaríkjastjórn hafnaði kröfum um að hún viðurkenndi innlimun Rússa á Krímskaga. Hann nefndi fjölmörg dæmi því til stuðnings að ríkisstjórnin þrýst á rússnesk stjórnvöld: gripið til refsiaðgerða, rekið sendiráðsmenn úr landi, lokað ræðisskrifstofum og látið stjórn Úkraínu í té vopn til að berjast gegn aðskilnaðarsinnum, hollum Rússum. Ráðherrann svaraði ekki beint hvort Rússum yrði að eilífu refsað fyrir að innlima Krímskaga.

Utanríkisráðherrann tók hvað eftir annað fram að það væri stefna stjórnar Trumps sem skipti máli en ekki orð forsetans. Var hann þá ekki alltaf á sömu bylgjulengd og forsetinn.

 

Heimild: The New York Times

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …