
Bandaríkjastjórn tilkynnti fimmtudaginn 29. desember að tveimur aðsetrum Rússa í Maryland og New York yrði lokað en þau hafa verið notuð fyrir starfsmenn sendiskrifstofa Rússa og til njósnastarfsemi. Frá og með hádegi föstudaginn 30. desember verður rússneskum stjórnarerindrekum bannað að fara inn á svæðin segir í The New York Times.
Þá voru 35 starfsmenn rússneskra sendiskrifstofa sem starfa við upplýsingaöflun í Bandaríkjunum reknir úr landi.
Bandaríkjamenn saka njósnastofnun rússneska hersins, GRU, um að hafa stundað tölvuárásir í því skyni að hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum – sama gildi um starfsmenn rússnesku öryggisþjónustunnar, FSB.
Beitt verður refsiaðgerðum gegn FSB og einnig gegn fjórum GRU-foringjum, þar á meðal forstjóra stofnunarinnar.
Fyrstu viðbrögð Moskvumanna voru að hafna öllum ásökunum um tölvuárásir sem „tilhæfulausum“. Búist er við hörðum gagnaðgerðum af hálfu Rússa. Talsmaður Kremlverja sagði að refsiaðgerðir Bandaríkjamanna mundu „eyðileggja stjónrmálasambandið við Rússa“
Barack Obama Bandaríkjaforseti sagðist hafa gefið fyrirmæli um þessar aðgerðir gegn Rússum vegna „ofríkis“ rússneskra yfirvalda í garð bandarískra embættismanna og „netheima-aðgerða“ þeirra vegna bandarísku kosninganna í nóvember.
„Öllum Bandaríkjamönnum ætti að vera brugðið vegna aðgerða Rússa,“ sagði í yfirlýsingu Obama. Þá sagði hann einnig að þessar aðgerðir væru ekki „heildarviðbrögð okkar við áreitni Rússa“. Gripið yrði til ýmissa ráða eftir því sem henta þætti hverju sinni og ekki yrði skýrt opinberlega frá öllu.
Þá mun Obama-stjórnin leggja skýrslu fyrir þingið á næstunni. Þrír öldungadeildarþingmenn á ferð um austurhluta Evrópu til að árétta stuðning Bandaríkjamanna vegna þrýstings Rússa sögðu fyrr fimmtudaginn 29. desember búast við ítarlegri rannsókn þingsins á framferði Rússa.
Formaður utanríkismálanefndar rússneska þingsins sagði við RIA-fréttastofuna að aðgerðir Obama-stjórnarinnar væru „dauðakippir pólitíks líks“ og vísaði þsr til þess að forsetinn lætur af völdum 20. janúar 2017 og við tekur Donald Trump sem Rússar telja vinveittari sér og Vladimír Pútín.
Öldungadeildarþingmenn boða refsiaðgerðir gegn Rússum vegna tölvuárása

Repúblíkaninn Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum, segir að Rússar hafi blandað sér í nýafstaðnar forsetakosningar í landi sínu og þeir og sérstaklega Vladimír Pútín Rússlandsforseti geti átt von á þungum refsiaðgerðum vegna þess. Hann segir að Bandaríkjaþing muni rannsaka málið á árinu 2017. „Rússar verða að átta sig á hvenær mælirinn er fullur,“ sagði Lindsey Graham miðvikudaginn 28. desember.
Ráðamenn í Moskvu hafa hafnað ásökunum um að Pútín hafi persónulega átt aðild að tölvuárásum í þágu Donalds Trumps, frambjóðanda repúblíkana, í baráttu hans um forsetaembættið við Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata. Af hálfu demókrata hefur verið sagt að rekja megi ósigur Hillary Clinton að hluta til íhlutunar Rússa.
Í The Washington Post sagði þriðjudaginn 27. desember að Barack Obama Bandaríkjaforseti kynnti hugsanlega í þessari viku refsiaðgerðir gegn Rússum vegna tölvuárásanna. Embættismenn sögðu í blaðinu að þær kynnu að felast í viðskiptaþvingunum og snerta stjórnmálasamband ríkjanna.
Graham öldungadeildarþingmaður lét ummæli sín falla í Riga, höfuðborg Lettlands, þar sem hann var á ferð með flokksbróður sínum John McCain öldungadeildarþingmanni og demókratanum Amy Klobuchar öldungadeildarþingmanni.
Tilgangur ferðar þeirra er að fullvissa ráðamenn í Eystrasaltsríkjunum þremur um að Bandaríkjamenn standi við hlið þeirra gagnvart þrýstingi frá Rússum hvað sem Donald Trump hafi sagt um stuðning sinn við NATO í kosningabaráttunni.
Þau voru fimmtudaginn 29. desember í Vilnius, höfuðborg Litháens. Þar sagði John McCain að hann vildi refsa Rússum leiddi rannsókn í ljós að þeir hefðu hlutast til um kosningarnar í Bandaríkjunum. Hann sagðist efast um að afskipti Rússa hefðu ráðið úrslitum kosninganna en tilraunir þeirra til að hafa áhrif á þau nægðu til að gripið yrði til refsiaðgerða. Rússar ógnuðu „grunngildum lýðræðisins“.
Graham sagði Rússa stuðla að „sundrung í lýðræðisríkjunum við landamæri sín“ og vísaði þar til Eistlands, Lettlands og Litháens.
Bandarísku öldungadeildarþingmennirnir hafa heimsótt löndin þrjú nú milli jóla og nýárs og halda þaðan til Úkraínu, Georgíu og Svartfjallalands.
John McCain (80 ára) er formaður hermálanefndar öldungadeildarinnar. Í tilefni af ferð þeirra þriggja sagði hann: „Áfram verður öflugur stuðningur við NATO í fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. […] Okkur þremur og flestum samþingmanna okkar í öldungadeildinni finnst framkoma Vladimírs Pútíns og Rússa ósæmileg – síðasta dæmið um slíkt er tilraun af hálfu Rússa til að hafa áhrif á úrslit nýlegra kosninga í Bandaríkjunum.“