Home / Fréttir / Ögrandi heimsókn Pútins til Kaliningrad veldur stríðskvíða

Ögrandi heimsókn Pútins til Kaliningrad veldur stríðskvíða


Vladimir Pútin ritar nafn sitt í gestabók Kant-háskóla í Kaliningrad.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti flaug fimmtudaginn 25. janúar til rússnesku hólmlendunnar Kaliningrad við Eystrasalt milli Litháens og Póllands. Fréttaskýrendur segja að ferðin veki ótta um að í bígerð séu ögranir í garð Eystrasaltsríkjanna en Rússar halda úti umtalsverðum herafla á þessu yfirráðasvæði sínu og þar eru skotpallar undir flugskeyti sem draga til Þýskalands og Skandinavíu.

Orrustuþotur voru á lofti undan strönd sænsku eyjunnar Gotlands þegar flugvél forsetans var flogið nálægt Eistlandi og með ströndum Lettlands og Litháens áður en henni var lent í Kaliningrad.

Í ræðu sem Pútin flutti í Kant-háskólanum í Kaliningrad fór hann hörðum orðum um nágranna hólmlendunnar fyrir að hafa fjarlægt sovésk stríðsminnismerki.

„Þetta lýsir stórundarlegri vanþekkingu og skilningsleysi á hvar þeir búa, hvað þeir eru að gera og hvað er í vændum,“ sagði forsetinn.

Talsmaður hans, Dmitríj Peskov, sagði að í heimsókninni fælust engin skilaboð til NATO. Tilgangur hennar væri að ýta undir „þróun“.

„Þegar forsetinn heimsækir héruð innan Rússneska sambandsríkisins er hann ekki að senda skilaboð til NATO-landanna,“ sagði Peskov. „Mikilvægið felst ekki í að senda skilaboð heldur að gera það sama og hann hefur gert í mörg ár – að hvetja til þróunar í landi okkar og héruðum þess.“

Í bresku vefsíðunni The Telegraph segir 26. janúar að hvað sem líði orðum Peskovs sé vert að skoða ferð Pútins inn í „hjarta Evrópu“ í ljósi þess að stríðshótanir Rússa í garð Vesturlanda magnist.

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sá sig knúinn til að lýsa andstöðu við að herskylda yrði innleidd eftir að yfirmaður breska hersins boðaði að almennir borgarar yrðu að skrá sig til að berjast við Rússa, kæmi til styrjaldar.

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði nýlega að Pútin kynni að lýsa yfir stríði gegn NATO eftir „fimm til átta ár“.

Camille Grand, greinandi við hugveituna European Council on Foreign Relations, sagði við The Telegraph að með ferð sinni sendi Pútin ýmis skilaboð, hann vildi til dæmis minna íbúa Kaliningrad á að þeir væru í Rússlandi.

„Að mínu áliti er þetta augljós tilraun til að minna á að Eystrasaltið sé ekki NATO-haf eftir aðild Finna og Svía að NATO,“ sagði hann. Auk þess minnti hann vestrið á að Rússar ættu hergögn í Kaliningrad.

Peskov sagði að „herskáar yfirlýsingar“ frá Eystrasaltslöndunum ógnuðu Kaliningrad sem Rússar tóku af Þjóðverjum eftir aðra heimsstyrjöldina.

Nú í janúar ákváðu stjórnir Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litháens að mynda sameiginlegt varnarsvæði á landamærum Rússlands og Belarús. Ætlunin er að reisa varnargarð til að hindra hernaðarlega umferð og koma á fót flugskeytastórskotaliði.

Eistlendingar ætla að reisa 600 byrgi sem hvert hýsir 10 hermenn á tæplega 300 km löngum sameiginlegum landamærum með Rússlandi.

Hanno Pevkur, varnarmálaráðherra Eistlands, sagði að stríðið í Úkraínu sýndi að þörf væri á „varnarmannvirkjum við landamærin til að vernda Eistland á fyrsta metra landsins“.

Í The Telegraph segir að litið sé á Kaliningrad sem líklegasta staðinn þar sem kynni að koma til hernaðarátaka milli Rússa og NATO-þjóða.

Skömmu eftir að innrásin hófst í Úkraínu sendu Rússar þangað hervélar búnar ofurhljóðfráum flugskeytum. Síðar hótuðu þeir að senda þangað skotflaugar sem geta borið kjarnavopn.

Svonefnt Suwalki-hlið er tæplega 100 km löng járnbraut milli landamæra Póllands og Litháens sem tengir Kaliningrad við bandalagsríki Rússa, Belarús, þar sem eru rússneskar herstöðvar.

Sendi Pútin herafla frá Belarús um Suwalki-hliðið í skyndisókn til Kaliningrad gæti hann rekið fleyg á milli Eistlands, Lettlands og Litháens og bandamanna þeirra. Þar með yrði skorið á birgða- og liðsflutningaleiðir landanna til Mið- og Vestur-Evrópu. Í herstjórnum NATO kalla menn Suwalki-hliðið Akkilesar-hæl bandalagsins.

Eftir að alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur Pútin vegna barnsrána í Úkraínu hefur hann að mestu haldið sig á heimaslóðum. Hann var síðast í Kaliningrad skömmu eftir að her hans réðst inn í Úkraínu í febrúar 2022.

Áður en flugvél Pútins lenti í Kaliningrad var hollensk eftirlitsvél á flugi yfir Eystrasalti. Þá er sagt að bresk Boeing RC-135W njósnavél hafi verið á svæðinu og einnig frönsk eftirlitsvél.

Fyrir utanríkisráðherrafund ESB-ríkja í Brussel miðvikudaginn 24. janúar sagði Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens: „Já, við erum sannfærðir um að raunverulegt stríð sé í myndinni.“

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, lýsti áhyggjum yfir því að hvorki her landsins né íbúar þess væru búnir undir stríð við Rússa.

Í ávarpi sem hann flutti  í þjálfunarbúðum háskóla þýska hersins í Hamborg sagði hann: „Erum við í alvöru tilbúin til að verja þetta land? Og hver eru þessi „við“? Um þetta verður að ræða.“

Heimild: The Telegraph

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …