
Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði í eldhúsdagsumræðum að kvöldi mánudags 26. september atvikið fimmtudaginn 22. september þegar rússneskar herflugvélar hefðu flogið undir íslenskri farþegaþotu á leið til Stokkhólms sýndi mikilvægi þess að á Íslandi væri ekki eyland í öryggismálum.
„Atvik af þessu tagi minna okkur á hið stóra samhengi hlutanna. Að nýsamþykkt lög um þjóðaröryggisráð og -stefnu eru ekki upp á punt, heldur snúast um raunveruleg mál sem varða fullveldi Íslands og öryggi almennings,“ sagði utanríkisráðherra.
Í fréttum af þessu ögrandi flugi rússneskra sprengjuþotna af gerðinni Blackjack milli Íslands og Noregs og Íslands og Skotlands hefur komið fram að ein rússnesku vélanna hafi verið með virkan ratsjársvara. Er það nýmæli þegar rússneskar hervélar eiga í hlut.
Vélarnar flugu þvert á flugleið íslenskra farþegavéla á leið yfir hafið og undir eina þeirra, Icelandair-vél á leið til Stokkhólms með um 200 farþega.
Á mbl.is er mánudaginn 26. september birt samtal við Alexeij Shadiskij, ráðunaut í rússneska sendiráðinu í Reykjavík. Hann segir rússnesku herþoturnar hafa virt alþjóðareglur en fréttir af atvikinu séu „skiljanlegar sem yfirskyn til að opna herstöð aftur í Keflavík. Verið sé að vekja upp gamla Rússagrýlu“ eins og segir á mbl.is.
Shadiskij segist hafa rætt við flugstjóra íslensku vélarinnar eftir hádegisfund Varðbergs föstudaginn 23. september og tekur sér fyrir hendur á mbl.is að rengja orð flugstjórans um þá hættu sem af flugi Rússanna hafi stafað.
Shadiskij stendur gjarnan upp á Varbergsfundum og flytur boðskap rússneskra stjórnvalda. Oft má þar heyra svipað sambland af skætingi og útúrsnúningi og birtist á mbl.is. Í því tilviki sem hér um ræðir bætir hann gráu ofan á svart og sakar flugstjórann um að fara með rangt mál.
Á Varðbergsfundinum með Clive Johnstone flotaforingja, æðsta yfirmanni flotamála innan NATO, vék Shadiskij að því að Rússar hefðu lagt til að allar hervélar á Eystrasaltssvæðinu hefðu ratsjársvara og kveikt á honum. Lét rússneski sendiráðunauturinn eins og NATO hefði ekki svarað tillögu Rússa.
Í The Wall Street Journal birtist þriðjudaginn 20. september frétt um að NATO hefði hafnað þessari tillögu Rússa. Embættismenn bandalagsins segðu að í tillögunni fælist lítið sem stuðlaði að flugöryggi eða kæmi í veg fyrir að rússneskum vélum væri flogið háskalega nærri skipum eða flugvélum frá NATO-ríkjunum.
Innan NATO er jafnframt áréttað að lykilríki bandalagsins vilji ræða áfram um hernaðarleg málefni við Rússa meðal annars í því skyni að auka flugöryggi með nýjum aðferðum.
Rússar lögðu tillögu sína um að allar hervélar skyldu fljúgja með kveikt á ratsjársvörum fram á fundi samstarfsráðs Rússa og NATO í júlí 2016. Höfðu Rússar lengi legið undir ámæli fyrir að kveikja ekki á ratsjársvörum í vélum sínum.
Í öllum flugvélum sem flogið er í þjónustu fyrir NATO – eins og til dæmis við loftrýmisgæslu á Eystrasalti – er kveikt á ratsjársvörum. Þeir senda frá sér einkennismerki sem svör við öðrum bylgjusendingum.
Í The Wall Street Journal segir að í sumum NATO-ríkjum eins og Noregi og Bandaríkjunum séu stundum gefin fyrirmæli til herflugmanna um að kveikja ekki á ratsjársvörum þegar þeir eru í eftirlitsferðum á vegum eigin stjórnvalda en ekki NATO. Þá segja embættismenn NATO að ratsjársvara vanti í sumar rússneskar hervélar.
Nokkrir vestrænir embættismenn litu á tillögu Rússa um ratsjársvarana sem hliðarspor til að tefja fyrir öðru. Mestu skipti að fá Rússa til að samþykkja meira gegnsæi og skarpari tilkynningarskyldu vegna heræfinga þeirra.
Reuters-fréttastofan sagði frá því föstudaginn 23. september að daginn áður hefðu breskar Typhoon-orrustuþotur verið sendar á loft frá Lossiemouth-herflugstöðinni í Skotlandi til að fljúga í veg fyrir tvær rússneskar Tu-160 Blackjack sprengjuþotur.
Júlíus Sigurþórsson segir á Facebook síðu Varðbergs að fremri Tu 160M Blackjack-þotan hafi verið með kallmerkið 20814 – RF-94109 / 12 og vængmaður hans 20815 – RF-94111 / 18. Norskar orrustuþotur frá Bodö báru fyrst báru kennsl á rússnesku vélarnar. Þær flugu einar áfram en undir ratsjáreftirliti þar til tvær Typhoon þotur breska flughersins tóku á móti þeim NV af Skotlandi, fylgdu þeim vestur með Skotlandi að mörkum írsku lofthelginnar. Næst tóku fjórar franskar Dassault Raphael við þeim vestur af Bretagne-skaga og fylgdu þeim þar til tvær spænskar þotur voru sendar á loft.
Við Spán sneru rússnesku vélarnar við og héldu heim á leið.
Breska blaðið Mirror birti i febrúar 2016 frétt um að á árunum 2010 til 2015 hefðu orrustuþotur breska flughersins verið virkjaðar 102 sinnum með litlum fyrirvara, þar af 50 sinnum vegna rússneskra véla. Í hinum tilvikunum var um borgaralegt flug að ræða.