Home / Fréttir / Ögrandi ferðir flughers Rússa við danska lofthelgi

Ögrandi ferðir flughers Rússa við danska lofthelgi

Myndin er tekin úr danskri orrustuþotu og sýnir rússneska sprengjuvél.
Myndin er tekin úr danskri orrustuþotu og sýnir rússneska sprengjuvél.

Tvær danskar F-16 orrustuþotur eru í starholunum allan sólarhringinn alla daga ársins í Skrydstrup-flugherstöðinni. Unnt er að senda þær á loft með nokkurra mínútna fyrirvara komi erlendar hervélar í átt að danskri lofthelgi eða fari inn í hana. Orrustuþotunum er flogið í veg fyrir erlendu vélarnar.

Orrustuþoturnar standa ekki þarna og safna á sig ryki og flugmenn þeirra og flugvirkjar dotta ekki vegna aðgerðaleysis. Frá 1. janúar 2013 til 21. júní í ár hafa flugvélarnar farið 222 sinnum á loft til að fljúga í veg fyrir ókunn flugför. Þetta kemur fram í skýrslu frá Værnsfælles Forsvarskommando sem Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Dana, hefur sent varnarmálanefnd danska þingsins. Að meðaltali hafa orrustuþoturnar verið sendar á loft til fyrirflugs níunda hvern dag á þessu tímabili.

Í yfirgnæfandi fjölda tilvika hefur verið um að ræða flug í veg fyrir rússneskar orrustu- eða sprengjuvélar sem hafa flogið upp að danskri lofthelgi á Eystrasalti eða Norðursjó. Í 184 tilvikum gátu dönsku flugmennirnir staðfest að Rússar væru á ferð. Í 24 tilvikum gátu þeir sér þess til að vélarnar hefðu verið rússneskar.

Í 14 skipti var um pólskar hervélar að ræða, eitt skipti sænska hervél og ein óþekkt vél sást árið 2013, þá var einu sinni brugðist við ósk frá flugstjóra farþegavélar um að kanna hvort lendingarhjól vélar hans hefðu farið niður eða ekki.

Á þessu árabili voru rússnesku vélarnar í nágrenni danskrar lofthelgi eða innan hennar flestar árið 2014, staðfest 51, óstaðfestar 7. Þetta ár innlimuðu Rússar Úkraínu og eftir það skarst í odda með þeim og Evrópuþjóðum.

Frá 1. janúar til 21. júní í ár, 2018, hafa dönsku F-16 þoturnar flogið í veg fyrir 23 staðfestar rússneskar hervélar og 3 óstaðfestar. Þetta eru fleiri vélar en allt árið 2016 og næstum eins margar og allt árið 2017. Hugsanlega nær fjöldinn í ár metáriðnu 2014.

 

Heimild: altinget.dk

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …