Home / Fréttir / Ögrandi en ekki ógnvekjandi flug Rússa sætir harðri gagnrýni Bandaríkjastjórnar

Ögrandi en ekki ógnvekjandi flug Rússa sætir harðri gagnrýni Bandaríkjastjórnar

 

Rússensku orrustuþoturnar sem ögru'u bandaríska tundurspillinum,
Rússensku orrustuþoturnar sem ögru’u bandaríska tundurspillinum,

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmdi fimmtudaginn 14. apríl flug tveggja rússneskra orrustuþotna við bandaríska tundurspillinn Donald Cook á Eystrasalti fyrr í vikunni. Ráðherrann sagði að flugmennirnir hefðu hagað sér á hættulegan og ögrandi hátt þegar þeir æfðu árás með bandaríska herskipið sem skotmark.

„Við fordæmum hegðun af þessu tagi. Hún er ófyrirleitin. Hún er hættuleg. Miðað við reglur um heimild til beitingar vopna hefði verið unnt að gefa fyrirmæli um að granda vélunum,“ sagði Kerry í samtali við CNN Espanol og The Miami Herald.

Eins og sagt var frá hér á síðunni í gær tilkynnti skipherrann á tundurspillinum Donald Cook að tvær rússneskar SU-24 orrustuþotur hefð tekið nokkrar árásar-dýfur skammt frá skipi sínu mánudaginn 11. og þriðjudaginn 12. apríl. Þoturnar virtust óvopanaðar. Nú er upplýst að einu sinni hafi fjarlægðin milli SU-24 þotunnar og herskipsins aðeins verið um 9 metrar. Donald Cook var á alþjóðlegri siglingaleið um 70 sjómílur frá rússnesku hólmlendunni Kaliningrad.

Minnt er á í fréttaskeytum frá fréttastofunum AP og Reuters að í öllum tilvikum hafi herforingi umboð til að verja skip, flugvél eða liðssveit sína. Skipherra beri að láta eigin dómgreind ráða mati á því hvort bráð hætta steðji að skipi hans.

Josh Earnest, talsmaður Hvíta hússins, sagði að Bandaríkjastjórn hefði lýst áhyggjum sínum fyrir tilstilli hermálafulltrúa síns í bandaríska sendiráðinu í Moskvu.

Í blaði bandaríska flotans The Navy Times er fimmtudaginn 14. apríl rætt við Rick Hoffman, fyrrv. skipherra, um flug rússnesku þotnanna sem hann segir að hafi vissulega verið ögrandi en ekki ógnandi. „Við verðum að átta okkur á að við erum ekki í stríði við Rússa,“ sagði hann og í þessu tilviki hefði skipherra Donalds Cooks vitað hvaða vélar þetta voru og þær virtust óvopnaðar. Hættan hefði jafnvel verið meiri hefðu  borgaralegar flugvélar verið á ferð.

„Menn ákveða ekki að drepa fólk vegna þess eins að það er leiðinlegt.“ sagði Hoffman. Hann sagði að framganga Rússa minnti á hvernig Norður-Kóreumenn hagi sér. Pútín taki sér eitthvað fyrir hendur gagnvart öðrum og blási það síðan upp á heimavelli.

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …