Home / Fréttir / Ógnvænleg innræting Rússa um kjarnorkustríð

Ógnvænleg innræting Rússa um kjarnorkustríð

Úr rússneskum ríkissjónvarpssal.

Breska ríkisútvarpið, BBC, heldur úti starfsemi sem miðar að því að fylgjast náið með fjölmiðlum annarra landa og greina stefnu stjórnvalda og þróun samfélagsmála á grundvelli þess sem þar birtist, BBC Monitoring.

Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu, 24. febrúar, hefur blaðamaðurinn Francis Scarr fylgst með því sem segir um stríðsreksturinn í rússneska ríkissjónvarpinu.

Í grein sem birtist í The Telegraph í Bretlandi laugardaginn 30. apríl gerir hann í stuttu máli grein fyrir því hvernig kynningin á stríðinu hefur breyst og nefnir þar sérstaklega til sögunnar þáttarstjórnendurna Vladimir Solovjov og Olgu Skabejevu.

Hann segir risaskjái umlykja sjónvarpssalinn og á þeim birtist myndir sem eigi að sýna fallna úkraínska hermenn. Þátttakendur í umræðuþættinum standi í hring. Á gólfinu birtist upplýstur risastór bókstafurinn Z sem nú sé tákn rússnesku innrásarinnar.

Skabejeva snýr sér glaðbeitt að myndavélinni og segir:

„Úkraínumenn molna mélinu smærra fyrir framan okkur! Allt sem vestrænir starfsbræður okkar segja okkur, sögur um hvernig þeir séu að sigra í stríðinu, er örvæntingartilraun til að styðja úkraínska herinn!“

Scarr segir að dag hvern standi Skabejeva og samstarfsmenn hennar tímunum saman fyrir framan áhorfendur í öllum helstu rússnesku stöðvunum og segi að átökin gangi „eftir áætlun“ og það muni að „fullu takast“ að „afvopna og af-nazistavæða“ Úkraínu.

Þau lendi hins vegar í vandræðum eftir því sem „sérstök hernaðaraðgerð“ Pútins dragist meira á langinn. Leiftursóknin átti aðeins að taka nokkra daga. Nú sé þriðji mánuður stríðsins hafinn.

Rússum sé sagt að her þeirra sæki fram af varúð enda skýli her Úkraínu sér hvað eftir annað á bak við almenna borgara. Við þær aðstæður verði Rússar að sjálfsögðu að gæta sín sérstaklega og það tefji vissulega fyrir framvindu baráttunnar segir Vjatsjeslav Nikonov, þingmaður flokks Pútins.

Vjatsjeslav Molotov, utanríkisráðherrra Stalíns, var afi Nikonovs sem fullyrðir að rússneski herinn gangi fram af „göfuglyndi“ sem „einfaldlega þekkist ekki í Vestrinu“.

Scarr segir að nú sé fullyrt í hverjum þætti eftir annan að ekki hafi tekist að vinna skjótan sigur vegna þess að Rússar eigi ekki aðeins í höggi við Úkraínumenn, heldur verjist þeir nú enn ógnvænlegri óvini sem birtist í mynd NATO.

Margarita Simonyan, forstjóri alþjóðlegu ríkisútvarpsstöðvarinnar RT, taki oft þátt í umræðunum sem gestur. Nú í vikunni sagði hún við milljónir áhorfenda:

„Mér finnst ótrúlegasta niðurstaðan líklegri en aðrar í þessari atburðarás, að þessu ljúki með kjarnorkuárás.“

Scarr segir að í valdatíð Pútins hafi stjórnvöld hvatt almenning til að skipta sér ekki af því sem ríkisstjórnin gerði heldur einbeita sér að sínum eigin hag og lífi. Þetta sé nú að breytast.

Ríkissjónvarpið leggi nú áherslu á að virkja almenning á annan hátt en áður hafi gerst í tíð Pútins. Rússum sé sagt að tilvistarógn steðji að þeim úr vestri, ætlunin sé að eyðileggja land þeirra.

Sjónvarpsmenn hvetji Rússa til að standa við bakið á forseta sínum eða „hæstráðanda heraflans“ eins og hann sé æ oftar kallaður.

Frægir einstaklingar sem gagnrýna stríðið sé úthrópaðir sem „svikarar“.

Lengi hafi verið unnið að því að gera áhorfendur ónæma fyrir ofbeldisverkum sona þeirra, bræðra og eiginmanna í Úkraínu.

Fyrir flesta þeirra sem búa utan Rússlands sé nýmæli að heyra fullyrðingar um að Úkraínumenn séu nazistar. Skoðanakannanir sýni hins vegar að um 70% þeirra Rússa sem treysta mest á fréttir ríkissjónvarpsins líti á þetta sem viðurkennda staðreynd.

Á því hafi verið alið allt frá því að Úkraínumenn kusu frekar samstarf við ESB-þjóðir en Rússa í byltingunni árið 2014 og síðan Krímskagi var innlimaður í Rússland hafi ríkissjónvarpið boðað að líta ætti niður á Úkraínumenn. Þetta hafi borið árangur gagnvart rússneskum almenningi.

Scarr segir það skapa sérstakt hugarástand að heyra talað um kjarnorkustríð næstum daglega í þáttum sem þessum. Undir herskáu tali af þessu tagi kjósi hann að hlífa tilfinningum sínum við því sem hann verði að gera. Þegar hann hætti að horfa á rússneska skjáinn blasi hins vegar voðaverk Rússa í Úkraínu við honum.

Grein sinni lýkur Francis Scarr með þeim orðum að stríðið sé nú háð af stórskotaliði en það hafi byrjað fyrir mörgum árum í rússnesku sjónvarpi.

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …