Home / Fréttir / Ógnarsprengju Rússa beitt grimmilega í Úkraínu

Ógnarsprengju Rússa beitt grimmilega í Úkraínu

FAB-1500 ógnarsprengja.

Í Úkraínu kenna menn svifsprengju Rússa við helvíti en henni er skotið úr flugvél í 60 til 70 km frá skotmarkinu og svífur til jarðar án þess að loftvarnakerfi Úkraínuhers greini hana.

Þegar sprengjan lendir veldur hún gífurlegu tjóni og myndar um 15 metra langan gýg.

Sprengjan er um 1.500 kíló á þyngd. Sovéski herinn átti hana en nú hefur hún verið endurnýjuð með uppfærslu. Gamla sovéska sprengjan hefur verið endurnýjuð með stýribúnaði svo að senda megi hana að sérgreindum skotmörkum í mikilli fjarlægð.

Þetta kemur fram hjá CNN en þar hafa menn rætt við úkraínska hermenn og herfræðing um sprengjuna sem ber formlega heitið FAB-1500.

Joakim Paasikivi, foringi í sænska hernum, segir við Svenska Dagbladet að sprengjan skapi vanda fyrir Úkraínuher vegna þess að hana megi senda frá rússneskri flugvél utan þess svæðis sem fellur undir úkraínska loftvarnakerfið.

Mikið af eyðileggingunni í Donetsk-héraði undanfarið má rekja til þess að þar hafa Rússar beitt FAB-1500 sprengjum. CNN segir að sprengjan eigi mikinn þátt í því að það tókst að hrekja Úkraínuher frá bænum Avdijivka fyrir fáeinum vikum eftir mikla og langa bardaga. Sprengjurnar valdi miklum ótta í her Úkraínu og dragi úr baráttuvilja hermannanna sem kenni sprengjurnar við helvíti.

Rússneskir herbloggarar fullyrða að lögð sé áherslu á fjöldaframleiðslu á sprengjunum í rússneskum hergagnasmiðjum. Með þeim sé unnt að ná lengra inn í Úkraínu en áður án þess að stofna sprengjuvélunum í hættu.

Joakim Paasikivi segir að áherslan á FAB-1500 sýni að Rússar hafi lært af mistökum síunum. Almennt hafi rússneski herinn ekki lagt mikið upp úr nákvæmni heldur lagt höfuðáherslu á magnið. Nú beinist meiri athygli að því að beita vopnum af nákvæmni.

 

Heimild: Berlingske

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …