Home / Fréttir / Ógn af Rússum meiri en áður í dönsku hættumati

Ógn af Rússum meiri en áður í dönsku hættumati

Anja Dalgaard-Nielsen

Leyniþjónusta danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), birti árlegt hættumat, Udsyn 2021 sitt þriðjudaginn 21. desember 2021. Þar segir að spenna á norðurslóðum (d. det arktiske område) og á Eystrasalti skapi Dönum sérstakan vanda.

Rússar stunda markvisst njósnir gagnvart Danmörku bæði með hlerun síma, netárásum og hefðbundnari aðferðum njósnara sem eru meðal annars að fá heimildarmenn til að veita upplýsingar um trúnaðar- og leyndarmál.

„Okkar mat er að mikil og viðvarandi ógn vegna njósna steðji að dönskum stofnunum, dönskum stjórnvöldum og mörgum dönskum fyrirtækjum,“ segir Anja Dalgaard-Nielsen, sem veitir eftirgrennslanadeild FE forstöðu.

Fréttamaður danska ríkisútvarpsins, DR, spurði hana að því hvernig Rússar gætu hlerað danska síma.

„Rússar hafa mjög mikla færni í að beita bæði hefðbundnum aðferðum til njósna og netnjósnum,“ svaraði hún.

Getur FE bent á sérstakt dæmi frá síðari árum? spurði fréttamaðurinn.

„Þegar um er að ræða mat til opinberrar birtingar tilgreinum við ekki slíkt. Hitt ætti hins vegar að vera ljóst að við birtum ekki svona texta í mati okkar að ástæðulausu,“ sagði Anja Dalgaard-Nielsen.

Með árlegu hættumati sínu vill FE beina athygli að því sem ógnar og krefst þess að gripið sé til öryggisráðstafna í Danmörku.

„Og á þennan hátt viljum við stuðla að upplýstum umræðum,“ sagði Anja Dalgaard-Nielsen.

DR segir að í samanburði við fyrri árlegar skýrslur séu í þeirri sem nú birtist alvarlegri viðvaranir en áður með vísan til Rússa.

FE segir að Rússar hafi, eftir að hafa aukið og endurnýjað herbúnað sinn í fimm ár, náð því stigi að á sumum sviðum standi þeir jafnfætis ef ekki framar en NATO.

Anja Dalgaard-Nielsen sagði að þarna væri ekki síst litið til Eystrasaltssvæðisins sem varpaði skugga á samskipti Rússa við nágranna sína þar:

„Það felst ekki í þessu að við teljum að Rússar vilji fara í stríð við NATO. Það gerum við ekki. Rússar óska ekki eftir stríði við NATO. Það sem hins vegar veldur okkur áhyggjum er að rússneskir ráðamenn eru haldnir djúpri, djúpri tortryggni í garð Vesturveldanna og vestrænna áforma og þess vegna er hætta á rangtúlkunum og tilviljanakenndri stigmögnun. Þetta er okkar helsta áhyggjuefni.“

Skapaðist hættuástand eða beinlínis kæmi til átaka er það mat FE að um þessar mundir séu Rússar sterkustu strákarnir á skólalóð Eystrasaltsins.

„Á fyrsta stigi hugsanlegra átaka við NATO þýðir þetta að Rússar hafa forskot af því að þeir geta hindrað flutning á liðsauka frá öðrum NATO-löndum inn á svæðið,“ sagði Anja Dalgaard-Nielsen.

Norðurslóðir

FE segir að ekki sé unnt að meta stöðu Danmerkur með hliðsjón af hugsanlegum ógnum gegn danska ríkinu án þess að líta á það sem eitt af norðurslóðaríkjunum (d. arktisk stat).

Í því sambandi beri að hafa í huga að Rússar hafi styrkt herafla sinn og vígbúnað í norðri til að verja landamæri sín þar. Þessu hafi Bandaríkjamenn svarað, meðal annars með því að senda sprengjuflugvélar í norður.

Anja Dalgaard-Nielsen sagði að af þessu leiddi að átakaflötum hefði fjölgað á norðurslóðum. Af þessum sökum hefðu Rússar hag af því að skapa vandræði innan danska konungsríkisins. Til marks um aðferðir sem beitt væri í því skyni mætti nefna að árið 2019 hefði bandarískur öldungadeildarþingmaður fengið sent falsað bréf þar sem hvatt var til nánara samstarfs Bandaríkjamanna og Grænlendinga til að skaða Dani.

Þarna væri um að ræða ákveðna aðferð til að móta andrúmsloft og hafa áhrif. Telur FE ekki ólíklegt að eitthvað í þessa veru hafi verið eða verði reynt oftar. Þá er talið líklegt að Rússar njósni um störf danska hersins á Grænlandi og umhverfis landið.

„Vil teljum að hættan á því sé töluvert mikil og metum það svo að á komandi árum aukist spennan umtalsvert og þar með einnig hættan sem henni fylgir. Rússar nota bæði alveg hefðbundnar aðferðir til njósna og þeir beita tækni sinni í netheimum á mjög virkan hátt,“ sagði Anja Dalgaard-Nielsen við DR.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …