Home / Fréttir / Öflugur rússneskur herfloti æfir milli Íslands og Noregs

Öflugur rússneskur herfloti æfir milli Íslands og Noregs

Vladimir Pútin flytur hyllingarræðu á degi rúsneska flotans 2021.

Aldrei fyrr í sögunni hefur svo öflugur floti herskÖipa úr rússneska Norðurflotanum verið á Eystrasalti. Skipin leggja nú af stað í siglingu vestur og norður fyrir Skandinaviuskaga til heimahafna á norðurströnd Rússlands við Barentshaf. Í flotanum verða þrír kjarnorkuknúnir kafbátar, einn dísilkafbátur, freigáta, stórt gagn-kafbáta skip, flugskeyta beitiskip, stórt landgönguskip og ýmis stuðningsskip.

Á þessum orðum hefst grein eftir Thomas Nilsen, ritstjóra norsku vefsíðunnar Barents Observer, á síðunni 30. júlí 2021. Hann vitnar í tilkynningu frá upplýsingadeild Norðurflotans þar sem segir að á leið sinni til heimahafna verði efnt til æfinga af ýmsu tagi til að reyna getu skipanna og hæfni áhafna þeirra.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti sunnudaginn 25. júlí ræðu við athöfn í Kronstadt skammt frá St. Pétursborg í tilefni af degi rússneska flotans. Hann hrósaði afli flotans og sagði að nú réði hann yfir „öllu nauðsynlegu til varnar landi okkar og þjóðarhagsmunum okkar“. Við hugsanlega andstæðinga sagði Pútin að Rússar gætu fundið óvini sína neðansjávar, ofansjávar og á flugi og veitt þeim „banahögg“ þætti það nauðsynlegt.

Thomas Nilsen rifjar upp að árið 2019, eftir dag flotans á Eystrasalti, sigldu skip Norðurflotans norður með strönd Noregs í átt til heimahafna og var talið að um venjulega og tíðindalausa heimsiglingu væri að ræða. Fyrirvaralaust tók siglingin á sig aðra mynd þegar Rússar hófu flotaæfingu með 30 herskipum úr Norðurflotanum, Eystrasaltsflotanum og Svartahafsflotanum fyrir vestan Noreg.

Æfingin bar enska heitið Ocean Shield 2019 og var fyrst tilkynnt að hún færi fram á Eystrasalti. Þegar skipin hópuðust hins vegar saman á Norðursjó og Noregshafi sagði þáverandi yfirmaður norska heraflans að markmið æfingarinnar væri að loka herskipum frá NATO-ríkjum leið að Skandinavíuskaga.

Að þessu sinni héldu fyrstu skip Norðurflotans af stað frá St. Pétursborg í byrjun vikunnar og að morgni föstudags 30. júlí sigldu þau undir Stórabeltisbrúna í Danmörku. Þar voru m. a. á ferð tvö kjarnorkuknúin skip, kafbáturinn Orel af Oscar-II-gerð og stóra gagn-kafbátaskipið Vice-Admiral Kulakov.

Fleiri rússnesk herskip fara nú um danska lögsögu þar á meðal beitiskipið Marshal Ustinov sem var fyrir sunnan Borgundarhólm föstudaginn 30. júlí. Í fylgd með beitiskipinu er Vepr, kjarnorkuknúinn kafbátur af Alula-gerð.

Í næsta hópi rússnesku herskipanna er dráttarbáturinn Altai, díselkafbáturinn Vladikavkaz af Kilo-gerð og stóra landgönguskipið Pyotr Morgunov.

Í lokahópnum sem heldur úr Eystrasalti verða freigátan Admiral Kasatonov og kjarnorkukafbáturinn Knjas Vladimir sem búinn er langdrægum eldflaugum.

Fram til þessa hefur Norðurflotinn sent einn kjarnorkuknúinn kafbát til þátttöku í flotasýningunni í St. Pétursborg. Það er því einstakt nýmæli að nú skuli sendir þangað þrír kjarnorkuknúnir kafbátar úr Norðurflotanum og þar af einn hlaðinn langdrægum eldflaugum.

 

Skoða einnig

Macron „hélt andlitinu“ í síðari umferð þingkosninganna

Útgönguspár að lokinni annarri umferð þingkosninganna í Frakklandi sýna að spár um að Þjóðarhreyfing Marine …