Home / Fréttir / Öflugri varnir á norðurslóðum ræddar í St. John´s

Öflugri varnir á norðurslóðum ræddar í St. John´s

Frá vinstri hershöfðingjarnir Pascal Godbout, yfirmaður norður herstjórnar Kanada, Odd-Harald Hagen, hermálafulltrúi Norðmanna gagnvart Bandaríkjunum og Kanada, Timo Kivinen, yfirmaður hers Finna, Wayne Eyre, herráðsforingi Kanada, Mark A. Milley, formaður herráðs Bandaríkjanna, og Flemming Lentfer, yfirmaður hers Dana. Þá sat Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fundinn.

Forráðamenn varna sex Norðurskautsríkja hittust í St. John‘s á Nýfundalandi mánudaginn 8. ágúst til að ræða stöðu öryggismála á norðurslóðum (e. Arctic).

„Nú er hverfipunktur á norðurslóðum þegar áhrif ólögmætrar innrásar Rússa í Úkraínu og hervæðingar þeirra á norðurslóðum, þungi loftslagsbreytinga, tækniframfarir og efnahagslegur áhugi stuðla að vaxandi áhuga, umsvifum og samkeppni á þann hátt að þetta svæði verður strategískt mikilvægara en nokkru sinni fyrr,“ sagði Wayne Eyre hershöfðingi, yfirmaður herráðs Kanada eftir að fundinum lauk í St. John´s.

Fulltrúar frá Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Kanada og Noregi sátu fundinn í því skyni að skipuleggja samvinnu ríkjanna og ræða reynsluna af aðgerðum þar.

„Skipan alþjóðamála breytist hratt og strategískt mikilvægi norðurslóða heldur áfram að vaxa. Og þegar öryggisumhverfið breytist og verður hættulegra er flóknara að verja meginland N-Ameríku og við verðum að líta til hnattræns samhengis þegar við gerum áætlanir og framkvæmum allar aðgerðir okkar,“ sagði Eyre og einnig:

„ Í Úkraínu erum við vitni að yfirgangi norðlægs nágranna okkar og við verðum að sýna árvekni – það sem gerist í Evrópu og annars staðar í heiminum hefur áhrif á heimavelli okkar.“

Kanadíski hershöfðinginn vakti máls á hve mikilvægt samstarfið á milli bandalags- og samstarfsþjóðanna í norðri væri við úrlausn öryggisverkefna.

„Við munum áfram vinna náið með bandalags- og samstarfsþjóðum okkar við að styrkja stöðumat okkar, eftirlit og stjórnkerfi með margvíslegu frumkvæði á norðurslóðum, þar má nefna endurnýjun NORAD [loftvarnakerfis N-Ameríku], aukna hæfni kanadíska hersins, hreyfanleika og viðveru í norðri og meiri þátttöku okkar í fjölþjóðlegum æfingum á svæðinu,“ sagði Eyre að lokum.

Fram til þess að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 hittust yfirmenn herafla Norðurskautsríkjanna átta árlega á fundum undir heitinu: Arctic Chiefs of Defence Forum.

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …