Home / Fréttir / Öfgahópa leitað innan þýska hersins

Öfgahópa leitað innan þýska hersins

 

Bundeswehr-háskólinn í München.
Bundeswehr-háskólinn í München.

Háskóli þýska hersins Bundeswehr-háskólinn hefur sætt sérstakri rannsókn vegna vaxandi ásakana um að öfgahyggja hafi grafið um sig innan þýska hersins. Ursula von der Leyen varnarmálaráðherra á einnig í vök að verjast vegna gagnrýni á hana í tengslum við þróun mála.

Bæverska blaðið Süddeutsche Zeitung birti föstudaginn 19. maí grein þar sem vakið er máls á því að hægrisinnuð öfgahyggja kunni að hafa grafið um sig í þýska hernum. Þessa hafi meðal annars orðið vart um nokkurra ára bil innan Bundeswher-háskólans í München og ná hreyfing skoðanabræðra bæði til nemenda og fyrrverandi nemenda.

Með því að starfrækja háskólann vill herinn auðvelda mönnum að hverfa til annarra starfa þegar þeir hverfa úr hernum.

Hreyfingin sem um er að ræða nefnist Identitäre Bewegung á þýsku, Identitarian Movement á ensku og Génération Identitaire á frönsku. Er hún talin eiga rætur frá árinu 2002 í Frakklandi þegar ungliðasamtök innan Bloc Identitaire fengu eigið líf, ef svo má orða það, og tóku að skjóta rótum í öðrum Evrópulöndum. Baráttumál hreyfingarinnar er berjast fyrir varðveislu þjóðlegra sérkenna og gilda og virðingu hefðbundinna vestrænna gilda.

Þýska leyni- og öryggislögreglan, BfV, fylgist nú með hreyfingunni í Þýskalandi og hvort starfsemi hennar brjóti í bága við stjórnarskrá landsins. Talið er að útlendingahatur og óvild í garð múslima setji svip sinn á hreyfinguna sem ætlað er að um 300 manns myndi í Þýskalandi með aðild að henni.

Gagnnjósnadeild þýska hersins (MAD) rannsakar nú 284 mál sem talin eru tengjast öfgahyggju til hægri innan Bundeswehr, þýska hersins.

Í Süddeutsche segir að fjórir nemendur í Bundeswehr-háskólanum séu til rannsóknar vegna grunsemda í þessa veru. Kannað er sérstaklega hvort nemendurnir hafi tengsl við undirforingja í þýska hernum sem er til rannsóknar vegna grunsemda um að hann hafi ætlað að dulbúast sem sýrlenskur hælisleitandi og fremja hryðjuverk til að auka óvild í garð til farand- og flóttafólks.

Ursula von der Leyen varnarmálaráðherra gaf fyrirmæli um rannsókn innan hersins vegna þessarar framgöngu undirforingjans. Hún er hins vegar sökuð um að hafa haldið illa á málinu og gripið of seint til aðgerða vegna þess.

Þá hefur gagnrýni einnig verið beint að varnarmálaráðuneytinu vegna þess að við rannsókn hefur komið í ljós að nokkrir þýskir hermenn hafi safnað minjagripum frá tíma nazista og ýmis hernaðarmannvirki beri enn nöfn forystumanna innan Wehrmacht – hersins á tímum nazista.

Von del Leyen vill að öllum steinum sé velt en hafnar ásökunum stjórnarandstæðinga um að hún beri ábyrgð á að öfgahyggja hafi grafið um sig innan hersins.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …