Fulltrúar stjórna Bandaríkjanna og Rússlands hófu viðræður í Genf að kvöldi sunnudags 9. janúar. Tilgangurinn er að minnka spennuna vegna mikils liðsafnaðar rússenska hersins við landamæri Úkraínu. Ólíklegt er að samkomulag takist og sagði Niall Ferguson sagnfræðingur við CNN sunnudaginn 9. janúar að viðræðurnar minntu á sviðsetningu sem væri aðdragandi hernaðarátaka.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði 9. janúar við CNN:
„Fyrir hendi er leið viðræðna og diplómatískra samskipta til að reyna að greiða úr ýmsum ágreiningi og hindra átök. Þá er einnig fyrir hendi leið átaka með víðtækum afleiðingum fyrir Rússa ef þeir endurtaka árás sína á Úkraínu. Við erum nú á þeim punkti að greina hvaða leið Pútin forseti kýs að fara.“
Vara-utanríkisráðherrar landanna tveggja ræða saman í Genf, Bandaríkjamaðurinn Wendy Sherman og Rússinn Sergeij Rjabkov. Miðvikudaginn 12. janúar verður fundur í samstarfsráði NATO og Rússa í Brussel og fimmtudaginn 13. janúar verður síðan fundur í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vínarborg. Þá koma að viðræðuborðinu fulltrúar Evrópuríkja sem annars yrðu sett til hliðar þar sem þau eru utan NATO.
„Við gefum ekkert eftir. Það kemur alls ekki til greina,“ sagði Sergeij Rjabkov við rússneska fjölmiðlamenn áður en hann fór til viðræðnanna. „Við höfum orðið fyrir vonbrigðum með viðbrögðin undanfarna daga frá Washington en einnig frá Brussel.“
Rússar halda því fram að Vestrið ögri Rússum með því að halda úti herafla við landamæri þeirra eða með því að láta Úkraínuher í té vopn til að berjast við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu sem studdir eru af rússneska hernum. Rússar vilja samkomulag um að Úkraína gangi aldrei í NATO og bandarískir hermenn verði ekki í herstöðvum í austasta hluta NATO.
Bandaríkjamenn segjast hvorki vilja minnka viðveru sína í Póllandi né Eystrasaltsríkjunum. Þvert á móti auki þeir hana grípi Rússar til árásaraðgerða. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði föstudaginn 7. janúar: „Hættan á nýjum átökum er raunveruleg.“ Rússar settu fram kröfur sem aldrei yrðu samþykktar og hótuðu síðan aðgerðum yrði þeim hafnað.
John Herbst, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna, segir að liðssafnaður Rússa sé hluti „rosalegs blekkingarleiks“ Pútíns til knýja fram tilsklakanir. Sýni Bandaríkjastjórn áfram sömu festu dugi það til að hindra innrás í Úkraínu en útiloka ekki minniháttar aðgerðir.
Ráðamenn í París og Berlín hafa margítrekað nauðsyn þess að fulltrúar Evrópuþjóða og einkum ESB kæmu að þessum viðræðum en Rússar settu sem skilyrði af sinni hálfu að aðeins fulltrúar Bandaríkjastjórnar yrðu viðmælendur þeirra. Er þetta túlkað á þann veg að Pútin öðlist á þennan hátt hærri sess en leiðtogar Evrópuþjóðanna auk þess sem hann geri lítið úr ESB og reki flein á milli Evrópuþjóða og Bandaríkjamanna sem hefur verið höfuðmarkmið Rússa í utanríkis- og varnarmálum frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.