Home / Fréttir / Óbreytt útlit á endurreistri Notre Dame segir menningarmálaráðherrann

Óbreytt útlit á endurreistri Notre Dame segir menningarmálaráðherrann

Fyrir brunann setti turnspíran sterkan svip á kirkjuna - svipmótið á ekki að breytast.
Fyrir brunann setti turnspíran sterkan svip á kirkjuna – svipmótið á ekki að breytast.

Roselyne Bachelot, nýr menningarmálaráðherra Frakka, sagði í útvarpsviðtali fimmtudaginn 9. júlí að Notre Dame-dómkirkjan sem varð eldi að bráð í apríl 2019 yrði endurreist með „sama“ útliti og fyrir brunann.

Ýmsir höfðu gert sér í hugarlund að útlitinu yrði breytt með því að turnspírann (sjá mynd) sem brann yrði „nútímalegri“ í endurgerðinni. Með því að taka af skarið fyrir sitt leyti aðeins nokkrum dögum eftir að hún varð menningarmálaráðherra hefur Roselyne Bachelot beint þessu viðkvæma álitamáli í ákveðinn farveg.

Í viðtalinu við France Inter sagði Bachelot að „víðtæk samstaða“ hefði myndast „meðal almennings“ um að ekki ætti að breyta turnspírunni með nútímalegri endurhönnun. „Það er erfitt að segja að hún verði nákvæmlega eins en sami andi mun einkenna spíruna,“ sagði ráðherrann.

Hún minnti á að Emmanuel Macron Frakklandsforseti ætti lokaorðið um þetta.

Fréttaskýrendur segja að með orðum sínum móti nýi menningarmálaráðherrann nýja stefnu í málinu.  Í fyrri ríkisstjórn hafi verið vilji til að skoða aðrar tillögur en um óbreytta spíru. Efndi ríkisstjórn Edouards Philppes, sem bast lausnar fyrir rúmri viku, til alþjóðlegrar samkeppni um nýtt útlit á kirkjuþakinu og spírunni.

Daginn eftir brunann í apríl 2019 var þessi mynd tekin.
Daginn eftir brunann í apríl 2019 var þessi mynd tekin.

Ætlunin var að velja verðlaunatillögu á fyrri hluta þessa árs. Allar tímasetningar hafa raskast vegna COVID-19-farsóttarinnar. Arkitektar og aðrir viðruðu fljótt ýmsar hugmyndir eins og til dæmis hönnuðurinn Nicolas Abdelkader sem lagði til að kirkjuþakinu yrði breytt í gróðurhús, yrði býflugnabú í turnspírunni.

Franska öldungadeildin og Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, leggja á það áherslu að útliti dómkirkjunnar verði ekki breytt.

Roselyn Bachelot (73 ára) sat á þingi fyrir UMP-mið-hægriflokk Jacques Chiracs og Nicolas Sarkozys. Hún var ráðherra íþróttamála og umhverfismála á sínum tíma en hafði hætt beinum afskiptum af stjórnmálum þegar hún var beðin að setjast í ríkisstjórnina sem var mynduð 6. júlí 2020.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …