
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur áform um að flytja umtalsvert fleiri þungavopn, brynvarin farartæki og annan búnað til NATO-landa í Mið- og Austur-Evrópu. Embættismenn segja að með þessu vilji forsetinn fæla Rússa frá frekari yfirgangi á svæðinu.
Þannig hófst ein aðalfréttin í The New York Times (NYT) þriðjudaginn 2. febrúar. Segir blaðið að forsetinn muni fara fram á 3,4 milljarða dollara fjárveitingu á fjárlögum 2017 til að standa undir kostnaði við þessi áform í Evrópu – það sé um fjórföldun á útgjöldum miðað við 789 milljónir dollara til þessa liðar á fjárlögum 2016. Vopnin verða til ráðstöfunar fyrir herafla Bandaríkjanna og NATO og eiga að tryggja að stöðugt sé unnt að halda úti fullbúnu stórfylki á svæðinu.
NYT segir að Rússar haldi enn úti liðsafla í samvinnu við aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu þótt undanfarna mánuði sé þar rólegra yfir öllu en áður. Bandarískir embættismenn segi að með því að efla her undir merkjum NATO sé ætlunin að sýna Vladimír Pútín Rússlandsforseta að ráðamenn á Vesturlönd gruni hann um græsku.
„Hér er ekki um að ræða viðbrögð við einhverju sem gerðist á þriðjudaginn,“ sagði háttsettur embættismaður. „Hér um að ræða viðbrögð við langtíma þróun sem hefur breytt öryggis-umhverfinu í Evrópu. Þetta endurspeglar nýtt ástand þar sem Rússar eru erfiðari viðfangs en áður.“
NYT segir ekki ljóst hvernig Rússar muni bregðast við auknum vígbúnaði á austurvæng NATO. Pútín hafi reynt að draga úr spennu gagnvart Vesturlöndum eftir að ritað var undir vopnahléssamkomulagið í fyrra. Embættismenn í Washington segi að rússneskum stjórnvöldum sé mikið í mun að stjórnir Bandaríkjanna og Evrópu aflétti efnahagsþvingunum, það gefi til kynna að þau muni ekki vilja ýta undir spennu þótt viðbúnaður NATO aukist.
NYT segir að hins vegar hafi sérfræðingar utan bandaríska stjórnkerfisins undrast hve útgjöldin vegna umsvifa hersins í Evrópu eigi að aukast mikið. Alls er óskað eftir að fjárveitingin til varnarmálaráðuneytisins nemi 580 milljörðum dollara á árinu 2017. Þar sé einnig að finna ósk um 35% aukningu á fjárveitingu til að takast á við Ríki íslams, í alls 7 milljarða dollara.
Sumir sérfræðingar segja að hið aukna fjármagn og öflugri vígbúnaður muni örugglega vekja ugg meðal Rússa. Stefnt er að því að vopnin verði flutt til landa eins og Ungverjalands, Rúmeníu og Eystrasaltsríkjanna.
Hvað sem líður átökunum í Sýrlandi og aukinni spennu vegna ítaka Ríkis íslams í Líbíu og annars staðar segja embættismenn að eflingu herafla Bandaríkjanna og NATO í Evrópu sé fyrst og fremst ætlað að opna augu Rússa í von um að þeir hverfi frá yfirgangsstefnunni sem hófst fyrir tveimur árum með innlimun Krímskaga í Rússland í óþökk stjórnvalda í Úkraínu og þrátt fyrir alþjóðlegar skuldbindingar Rússa frá 1994 um að virða landamæri Úkraínu. Þessi yfirgangur hefur skapað öryggisleysi hjá NATO-þjóðum við landamæri Rússlands og talið er nauðsynlegt að bregðast við því og sýna ráðamönnum í Moskvu að NATO muni grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að standa að baki aðildarríkjum sínum í austri.