Home / Fréttir / CIA segir Rússa hafa stutt Trump -Obama vill opinbera skýrslu um tölvuárásir Rússa fyrir 20. janúar

CIA segir Rússa hafa stutt Trump -Obama vill opinbera skýrslu um tölvuárásir Rússa fyrir 20. janúar

hybrid-war

Banadaríska blaðið The Washington Post birti frétt laugardaginn 10. desember þar sem því er slegið föstu af bandarísku leyniþjónustunni CIA að Rússar hafi markvisst lagt Donald Trump lið í forsetakosningabaráttunni fyrr á árinu.

Í blaðinu er vitnað í embættismenn sem segja að þeir hafi fundið einstaklinga með tengsl við rússnesk stjórnvöld sem hafi afhent WikiLeaks tölvubréf sem stolið hafi verið frá stjórn flokks demókrata og John Podesta, helsta aðstoðarmanni Hillary Clinton.

Eftir að blaðið birti frétt sína var brugðist hart við henni af hálfu Trumps. Í yfirlýsingu frá skrifstofu hans sagði: „Þetta er sama fólkið og sagði að Saddam Hussein ætti gjöreyðingarvopn. Kosningabaráttunni lauk fyrir löngu með einum mesta sigri sögunnar þegar litið er til fjölda kjörmanna. Nú er tímabært að líta til framtíðar og gera Bandaríkin mikil að nýju.“

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur gefið bandarískum njósnastofunum fyrirmæli um „alhliða athugun“ á „athöfnum tengdum tölvuárásum sem ætlað var að trufla bandarísku forsetakosningarnar árið 2016“.

Fyrirmælin voru gefin föstudaginn 9. desember við vaxandi þrýsting frá þingmönnum demókrata og repúblíkana sem krefjast ítarlegrar, opinberrar rannsóknar á afskiptum Rússa af kosningabaráttunni.

Eric Schultz, vara-upplýsingafulltrúi Hvíta hússins í Washington, sagði fjölmiðlamönnum föstudaginn 9. desember að komið hefði í ljós að skipulega hefði komið til „illviljaðra“ tölvuaðgerða sem snertu bandarísku kosningarnar. Hann sagði að með athuguninni yrði farið „djúpt ofan í málið“. Litið yrði allt aftur til forsetakosninganna árið 2008 þegar talið var að Kínverjar hefðu notað tölvur til íhlutunar í þær.

Schultz sagði að við rannsóknina nú yrði hugað að öllum erlendum afskiptum og rannsakendur mundu rekja alla þræði til enda.

Þegar hann var spurður um hlut Rússa sagði Schultz að það væri „ekkert nýtt fyrir rússnesk stjórnvöld“ að standa í svona aðgerðum. Bandaríkjamenn hefðu árum saman séð þá gera það í Asíu og Evrópu.

Schultz sagði að forsetinn vildi sjá niðurstöðu rannsóknanna áður en hann hverfur úr embætti sínu 20. janúar. Hann sagði ekki um það að ræða að breyta úrslitum kosninganna heldur tryggja að ekki yrði unnt að leika samskonar leik í kosningum síðar.

Ríkisstjórn Obama sakaði Rússa formlega í október 2016 um að hafa brotist inn í tölvukerfi stjórnar Demókrataflokksins og annarra stjórnmálasamtaka.

Donald Trump gerði hvað eftir annað lítið úr ásökunum um afskipti Rússa af kosningabaráttunni. Í einni af kappræðunum vegna kosninganna sagði hann að „400 punda maður sitjandi í rúmi sínu“ gæti gert tölvuárásir.

Í kosningabaráttunni lögðu Trump og menn hans áherslu á kjósendur beindu athygli sinni að efni tölvubréfanna en ekki öðru.

Nokkrir forystumenn repúblíkana í öldungadeild Bandaríkjaþings, þar á meðal John McCain og Lindsey Graham, segja að þeir undirbúi nú víðtæka rannsókn á afskiptum Rússa af kosningabaráttunni og á tölvuógnum þeirra gegn Bandaríkjaher. Báðir þingmennirnir hafa gagnrýnt lofsamleg ummæli Trumps í garð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

Graham sagði við CNN-sjónvarpsstöðina: „Ég ætla að kanna allt varðandi Rússa eftir því sem unnt er. Ég held að þeir hafi einna mestu áhrif allra gegn stöðugleika í heimsmálum. Ég tel þá hafa skipt sér af kosningunum okkar og ég vil að Pútín verði látinn gjalda fyrir það.“

Pútín hefur lýst viðbrögðum Bandaríkjamanna vegna tölvuárásanna á demókrata sem „móðursýki“. Það skipti engu hverjir náðu í tölvubréfin, nær sé fyrir Bandaríkjamenn að skoða efni þeirra.

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …