Home / Fréttir / Obama verður að skýra hvað hann ætlar að gera við talíbana eftir morðið á Mullah Mansour

Obama verður að skýra hvað hann ætlar að gera við talíbana eftir morðið á Mullah Mansour

Hræið af bíl Mullah Mansours.
Hræið af bíl Mullah Mansours.

Í leiðara The New York Times (NYT) er miðvikudaginn 25. maí rætt um hvað felist í þeirri ákvörðun Bandaríkjastjórnar að drepa Mullah Akhtar Muhammad Mansour, leiðtoga talibana, með dróna innan landamæra Pakistan á svæði þar sem slíkum vopnum hefur ekki verið beitt áður. Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði að Mansour hefði verið drepinn vegna þess að hann hefði lagt á ráðinn um árásir á mikilvæg bandarísk skotmörk í Afganistan og staðið gegn friðarviðræðum.

NYT segir að árásin sé til marks um að Bandaríkjastjórn sé meira en nóg boðið vegna tvöfeldni Pakistana sem segðust vinna með Bandaríkjamönnum að upprætingu hryðjuverkamanna en veittu síðan talíbönum skjól og jafnvel einnig ósvífnari samstarfsmönnum þeirra í Haqqani-hreyfingunni. Pakistanar treystu á talíbana og haqqana til verndar hagsmunum sínum í Afganistan og til að koma í veg fyrir að áhrif Indverja ykjust þar.

Bandaríkjamenn hefðu vænst þess af Pakistönum að þeir skipuðu talíbönum að setjast að samningaborðinu með stjórnvöldum í Kabúl eftir að Mullah Mansour tók við af Mullah Muhammad Omar árið 2013 sem leiðtogi talíbana.

Mullah Mansour hefði hins vegar hafnað friðarviðræðum og hert árásir á afgönsk og bandarísk skotmörk. Yfirráðasvæði talíbana hefði stækkað og stjórnin í Kabúl væri enn valtari í sessi en áður.

NYT spyr hvort túlka eigi árásina á Mansour þannig að Obama ætli að auka aðgerðir gegn al-Kaída í Afganistan. Nú séu 10.000 bandarískir hermenn í landinu og við það hafi verið miðað að þeir yrðu 5.500 í árslok.

Minnt er á að bifreiðin með Mullah Mansour hafi verið á leiðinni frá Íran til Pakistan þegar henni var grandað úr lofti. Segist NYT hafa heimildir fyrir því að Íranir hafi aðstoðað talíbana hljóðlega í nokkur ár.

Pakistanar kvörtuðu mánudaginn 23. maí yfir að Bandaríkjamenn hefðu brotið gegn fullveldi sínu með árásinni. NYT  segir að á hinn bóginn ættu Pakistanar að líta í eigin barm núna eins og þeir hefðu átt að gera þegar Osama bin Laden var felldur skammt frá herstöð þeirra árið 2013 – ef til vill hefði ekki komið til árásarinnar ef Pakistanar hefðu lagt Bandaríkjamönnum lið í átökunum gegn talíbönum.

NYT telur víst að samskipti Bandaríkjamanna og Pakistana versni enn við þetta. Annað sé meir óvissu háð. Hugsanlega grípi svo mikil skelfing um sig meðal þeirra vegna drápsins á Mullah Mansour að arftaki hans sýni meiri friðarvilja. Hitt kunni einnig að gerast að meira hörkutól komist til valda meðal talíbana. Þá sé í þriðja lagi hugsanlegt að menn úr röðum talíbana gangi til liðs við Ríki íslams. Reynslan sýni að dráp á foringja hryðjuverkamanna leiði ekki endilega til þess að dragi úr ofbeldi.

Obama verði að svara þeirri spurning hvort drápið á Mulla Mansour sé endir málsins eða hvort það sé hluti stefnu sem miðar að því knýja Pakistani, sem taldir eru bandamenn Bandaríkjamanna, og leiðtoga talíbana til að taka þátt í friðarviðræðum.

WRITE A COMMENT

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …