
Barack Obama Bandaríkjaforseti hét því í ávarpi til bandarísku þjóðarinnar að kvöldi sunnudags 6. desember að vinna sigur á Daesh (Ríki íslams). Hann sagði jafnframt að Bandaríkjamenn yrðu ekki „enn einu sinni dregnir inn í langvinnan og kostnaðarsaman landhernað“í útlöndum.
Örsjaldan ávarpar Bandaríkjaforseti þjóð sína beint úr skrifstofu sinni í Hvíta húsinu (Oval Office). Obama gerði það þó að þessu sinni. Hann sagði að hryðjuverkaógnin í Bandaríkjunum hefði „þróast á nýtt stig“ og vísaði þar til árásar tveggja hryðjuverkamanna í Kaliforníu í síðustu viku. Hann sagði að öfgahópar fjarri Bandaríkjunum gætu auðveldlega ýtt undir árásir þar.
„Þar sem við höfum náð betri árangri við að koma í veg fyrir flóknar fjölþættar árásir eins og 9/11 hafa hryðjuverkamenn snúið sér að einfaldari ofbeldisverkum eins og skotárásum á fjölda fólks sem eru alltof algengar í samfélagi okkar,“ sagði forsetinn. „Við kynntumst slíkri árás í Fort Hood árið 2009, í Chatttanooga fyrr á þessu ári og nú í San Bernandino.“
Lögreglan hefur fundið sannanir fyrir því að tveir byssumenn sem myrtu 14 manns í Kaliforníu miðvikudaginn 2. desember höfðu tengsl við öfgamenn múslima og Daesh-hópinn sem lýsti sig ábyrgan fyrir samstilltu árásinni í París föstudaginn 13. nóvember.
Obama sagði ekkert benda til að byssumennirnir tveir, kona og karl, væru hluti af stærri hryðjuverkahópií Bandaríkjunum. Hann lýsti verknaði þeirra sem „hryðjuverki í þeim tilgangi að drepa saklaust fólk“.
Forsetinn hafnaði hugmyndum sem hreyft hefur verið um að fjölga beri bandarískum landhermönnum á svæðinu. Hann sagði að stefna sem fæli í sér þjálfun og búnað í þágu vinveitts herafla í Írak og Sýrlandi væri eina leiðin í átt að langvinnum friði.
Obama varaði einnig við að nota nýlega árás sem tilefni til árása á múslíma almennt í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum.
„Bandarískir múslimar eru vinir okkar og nágrannar, samstarfsmenn okkar, íþróttahetjur okkar,“ sagði forsetinn. „Og, já, þeir eru karlar og konur í her okkar sem eru fús til að leggja líf sitt í sölurnar til varnar landi okkar. Við skulum minnast þess.“