Home / Fréttir / Obama og Stoltenberg árétta mikilvægi sameiginlegra varna

Obama og Stoltenberg árétta mikilvægi sameiginlegra varna

 

 

Jens Stoltenberg og Barack Obama á fundi í Hvíta húsinu.
Jens Stoltenberg og Barack Obama á fundi í Hvíta húsinu.

 

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hittust á fundi í Washington þriðjudaginn 26. maí. Á blaðamannafundi að honum loknum sagði Obama að við NATO blöstu nú mikilvæg og áhættusöm verkefni.

„Við ræddum stöðuna í Úkraínu og æ meiri sóknarblæ á stefnu Rússa, við áréttuðum að NATO er ekki aðeins hornsteinn öyggis á Atlantshafssvæðinu heldur í mörgu tilliti öryggis í heiminum öllum,“ sagði Bandaríkjaforseti.

Á fundi sínum í Wales í september 2014 hefðu leiðtogar NATO-ríkjanna staðfest að NATO mundi tryggja öryggi aðildarlanda sinna á grundvelli 5. gr. sáttmála þess um að árás á eitt NATO-ríki væri árás á þau öll. Samhliða hefði verið ákveðið að skipuleggja herafla undir merkjum bandalagsins þannig að honum mætti beita í þágu ríkja næst Rússlandi með skömmum fyrirvara.

„Við áréttuðum einnig mikilvægi þess að hrinda Minsk-samkomulaginu í framkvæmd og sjá til þess að stjórn Úkraínu geti tryggt þjóð sinni sam landsyfirráðarétt og fullveldi sem aðrar þjóðir njóta,“ sagði Obama.

Hann sagði Bandaríkjastjórn einnig vinna náðið með bandamönnum sínum innan NATO í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Næsti leiðtogafundur NATO verður í Varsjá, höfuðborg Póllands, í júlí 2016.

Stoltenberg þakkaði Obama forystu hans á tímum þegar forystu Bandaríkjanna væri verulega þörf. Hann sagði að tilvist bandarísks herafla í Evrópu væri mikil öryggistrygging fyrir NATO-þjóðir álfunnar.

Obama sagði mörg erfið viðfangsefni bíða úrlausnar og enn eins og áður skipti NATO miklu þegar tekist væri á við þau. Forsetinn sagði:

„Hér er um að ræða öflugasta bandalag í heimssögunni. Við verðum að tryggja að hvert aðildarríki leggi sitt af mörkum til þeirra verkefna sem NATO hefur verið falið að sinna.“

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …