Home / Fréttir / Obama kveður NATO með hástemmdri ræðu

Obama kveður NATO með hástemmdri ræðu

 

Barack Obama
Barack Obama

Barack Obama Bandaríkjaforseti sat síðasta NATO-ríkisoddvita fund sinn í Varsjá 8. og 9. júlí. Á blaðamannafundi í fundarlok sagði hann:

„Nú er örlagatími í sögu bandalags okkar. Á tæplega 70 ára starfsævi bandalags okkar höfum við aldrei staðið frammi fyrir svo mörgum verkefnum á sama tíma. Þau snerta öryggismál, mannúðarmál og stjórnmál,“ sagði Obama og nefndi hryðjuverk að undiragi Daesh, aðför Rússa að landsyfirráðum Úkrainu, straum farandfólks til Evrópu og ákvörðun Breta um að segja sig úr ESB.

„Á þessum örlagatíma vil ég árétta afdráttarlaust það sem aldrei mun breytast. Það er framlag Bandaríkjamanna til öryggis Evrópu, tengsl okkar yfir Atlantshaf og sameiginlegar varnir okkar. Á næsta ári verður þess minnst að 100 verða liðin frá því að fyrstu bandarísku hermennirnir komu til Evrópu til þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni og alla daga síðan hafa bandarískir hermenn lagt sitt af mörkum til öryggis Evrópu. Í blíðu og stríðu geta Evrópumenn treyst á Bandaríkjamenn. Alltaf,“ sagði Obama.

Hann minnti á ákvörðun ríkisoddvitanna um að senda herfylki til Eystrasaltslandanna og Póllands, það væri til marks um sameiginlega ábyrgð á öryggi ríkjanna og í henni fælist mesta styrking sameiginlegra varna NATO frá lokum kalda stríðsins. Hann sagði að Rússar yrðu að framkvæma ákvæði Minsk-friðarsamkomulagsins um Úkraínu áður en samskipti við þá kæmust í eðlilegt horf.

„Þetta er síðasti NATO-toppfundur minn og þegar ég lít yfir það sem áunnist hefur undanfarin átta ár get ég með hugarró fullyrt að okkur hefur miðað fram á veginn. Bandarískum hermönnum hefur fjölgað í Evrópu. Styrkur og staða NATO er eins og hún verður best. Eins og við höfum staðið saman í 100 ár veit ég að við munum enn standa saman í 100 ár,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti.

 

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …