Home / Fréttir / Obama harðorðari en áður í garð Pútíns – segir hann haldinn ranghugmyndum um rússneskt stórveldi

Obama harðorðari en áður í garð Pútíns – segir hann haldinn ranghugmyndum um rússneskt stórveldi

Barack Obama ræðir við blaðamenn eftir leiðtogafund G7-ríkjanna.
Barack Obama ræðir við blaðamenn eftir leiðtogafund G7-ríkjanna.

 

Barack Obama Bandaríkjaforseti herti mánudaginn 8. júní á gagnrýni sinni í garð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta vegna framgöngu hans gagnvart Úkraínu. Hann sakaði Pútín um að stofna efnahag Rússlands í hættu með misheppnaðri tilraun til að endurvekja sovéska stórveldið.

Obama lét orð um þetta falla á fundi leiðtoga G7-ríkjanna í Bæjaralandi. Hann sagði að Bandaríkjastjórn mundi herða refsiaðgerðir gegn Rússum ef Pútín léti ekki af árásum sínum. Hann fordæmdi stefnu Pútíns á hvassari hátt en nokkru sinni fyrir segir The Daily Telegraph og vitnar í forsetann:

„Hann[Pútín] verður að taka af skarið. Heldur hann áfram að grafa undan efnahag lands síns og stuðla að einangrun Rússlands til að fullnægja ranghugmyndum sínum um að endurskapa dýrð sovéska stórveldisins eða áttar sig á að mikilleiki Rússlands ræðst ekki af því að fótum troða landsyfirráðarétt og fullveldi annarra þjóða?“

Leiðtogafundur helstu iðnríkja heims var nú haldinn í annað sinn án þátttöku Rússa. Áður var talað um G8-ríkin en þeim fækkaði um eitt þegar hætt var að bjóða Pútín til fundarins eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga í trássi við alþjóðalög í mars 2014.

Heimildarmenn um fundinn í Bæjaralandi segja að viðræður leiðtoganna um alþjóðamál við kvöldverðarborð sunnudaginn 7. júní hafi að tveimur þriðju hlutum snúist um ástandið í Úkraínu og stefnuna gagnvart Rússum.

Í Kreml gerðu menn lítið úr fjarvist Pútíns og sögðu hann kjósa „annan vettvang“ þar sem meiri árangur næðist og tengslin væru meiri við raunverulega strauma í efnahagslífi heims.

Angela Merkel Þýskalandskanslari var gestgjafi á fundinum að þessu sinni. Hún hefur lagt sig mest fram um að ræða við Pútín um diplómatíska lausn á deilum vegna Úkraínu. Eftir leiðtogafundinn sagði hún að hverfa mætti frá refsiaðgerðum gagnvart Rússum ef þeir og aðskilnaðarsinnar í Úkraínu færu í einu og öllu eftir því sem ákveðið var með Minsk-friðarsamkomulaginu fyrr á árinu.

Hún lét þess jafnframt getið að í Evrópu og Bandaríkjunum væru menn til þess búnir að herða refsiaðgerðirnar. Þýskir embættismenn sögðu að til þessa kynni að verða gripið ef aðskilnaðarsinnar leggðu meira land undir sig í austurhluta Úkraínu, einkum í kringum hafnarborgina Mariupol sem hefur verulegt hernaðargildi.

Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu, gaf her landsins í síðustu viku fyrirmæli um að búa sig undir „allsherjar innrás“ Rússa vegna vaxandi átaka nálægt landamærum þeirra.

„Eins og við höfum séð undanfarna daga, láta rússneskir hermenn áfram að sér kveða í austurhluta Úkraínu, þeir brjóta gegn fullveldi Úkraínu og landsyfirráðum,“ sagði Obama mánudaginn 8. júní. „Mikill efnahagssamdráttur er í Rússlandi. Aðgerðir Rússa í Úkraínu skaða Rússa sjálfa og þjóðlíf þeirra. Ljóst er að G7-ríkin munu, sé það nauðsynlegt, grípa til frekari íþyngjandi refsiaðgerða gegn Rússum.“

 

 

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …