
Barack Obama Bandaríkjaforseti boðaði í útvarpsviðtali fimmtudaginn 15. desember að Bandaríkjastjórn mundi ekki átölulaust láta það líðast að erlend ríki gerðu árás á lýðræðisleg grunngildi ríkisins með íhlutun í forsetakosningabaráttuna.
„Ég held að enginn þurfi að efast um að við verðum að grípa til aðgerða þegar einhver erlend ríkisstjórn reynir að hafa áhrif á úrslit kosninga okkar og það munum við gera,“ sagði Barack Obama við NPR-útvarpsstöðina. Ummæli hans eru túlkuð á þann veg að hafinn sé nýr kafli í samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna þar sem barist verði í netheimum.
Bandaríkjastjórn sakar Rússa, jafnvel með beinni aðild Vladimírs Pútíns forseta, um að beita sér gegn Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata í forsetakosningunum. Sagt er að Pútín beri illan hug til Hillary Clinton eftir að hún sem utanríkisráðherra árið 2011 dró í efa að rétt hefði verið staðið að framkvæmd þingkosninga í Rússlandi. Þá var efnt til fjöldamótmæla gegn Pútín í Moskvu og víðar í Rússlandi.
Það er víðar en í Bandaríkjunum sem leyniþjónustumenn vara við íhlutun Rússa í stjórnmálastarf þjóða sinna. Gunnar Karlson hershöfðingi, yfirmaður leyniþjónustu sænska hersins (MUST) sagði í sjónvarpsviðtali við sænska ríkissjónvarpið (SVT) sunnudaginn 11. desember að Rússar stunduðu mestan tölvuhernað gegn Svíum og beittu sér mest á stjórnmálasviðinu.
„Auðvelt er fyrir mig að halda þessu fram – margt af því sem beint er gegn okkur kemur frá augljósum sendi, það má rekja það meira og minna beint. Það getur snúist um að dreifa gervifréttum, teygja sannleikann og leggja meiri áherslu á ein rök frekar en önnur til að erfiðara verði en ella að gera sér grein fyrir hvað sé á seyði,“ sagði hershöfðinginn.
Hann sagði að lengi hefði verið reynt að nálgast leyndarmál með því að beita tölvum og sífellt væru menn á varðbergi gegn slíkum tilraunum.
„Þetta er alvarleg ógn því að þeir geta eftir mismunandi leiðum brotist að sjálfum grunnstoðum lýðræðisins og reynt að hafa áhrif á lýðræðislega töku ákvarðana,“ sagði Karlson.
Hann nefndi til dæmis að reynt hefði verið að móta almenningsálitið með því að segja frá bréfi sem eignað var Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, þótt það hefði verið tilbúningur frá upphafi.
Gunnar Karlson hershöfðingi sagði:
„Einstök atvik eru ekki meginvandamálið heldur hitt að oft er beitt samræmdum aðgerðum samtímis gegn okkur og er markmiðið að grafa almennt undan trúverðugleika upplýsinga frá hinu opinbera. Alvarlegustu aðgerðirnar til að hafa áhrif á skoðanir Svía má að sjálfsögðu rekja til Rússa.“
.