Home / Fréttir / Obama ætlar að hughreysta bandamenn eftir sigur Trumps

Obama ætlar að hughreysta bandamenn eftir sigur Trumps

Barack Obama
Barack Obama

Barack Obama, fráfarandi Bandaríkjaforseti, mun hitta Angelu Merkel Þýskalandskanslara, Theresu May, forsætisráðherra Breta, og François Hollande Frakklandsforseta á fundi í Berlín innan skamms á kveðjuferð sinni um Evrópu.

Frá Hvíta húsinu í Washington, skrifstofu forsetans, berst að ætlun Obama sé að róa bandamenn sína eftir áfall þeirra vegna úrslitanna í forsetakosningunum í Bandaríkjunum þriðjudaginn 8. nóvermber og sigur Donalds Trumps.

Forsetinn fráfarandi ætlar einnig að jitta Xi Jinping, forseta Kína, í tengslum við leiðtogafund Kyrrahafsríkja sem verður haldinn í Lima, höfuðborg Perú.

Ben Rhodes, höfuðráðgjafi Obama, hefur kynnt þessi sjónarmið. Hann sagði föstudaginn 11. nóvember: „Við teljum að úrslit forsetakosninganna verði aðalumræðuefnið hvert sem við förum,“ sagði hann.

Áréttað er að allar fyrri stjórnir Bandaríkjanna, hvort sem demókratar eða repúblíkanar ráði þeim, hafi staðið fast við bandarískar skuldbindingar gagnvart bandamönnum í Evrópu, Japan og S-Kóreu.

Barack Obama ætlar að flytja ræðu í Aþenu – vöggu lýðræðisins – sem hefur sögulega þýðingu segja menn í Hvíta húsinu.

François Hollande ræddi við Trump í síma föstudaginn 11. nóvember. Þar var lögð áhersla á að skýra þyrfti afstöðu nýrrar stjórnar Bandaríkjanna til loftslagssáttmálans og hvernig hún fellur að stefnu Evrópuríkja.

Þá vilja Evrópumenn einnig átta sig á hvert stefnir í átökum við hryðjuverkamenn og í stríðinu í Sýrlandi.

Theresa May ræddi við Trump í síma fimmtudaginn 10. nóvember. Trump hringdi til Írlands, Japans og átta annarra landa áður en hann hringdi til Bretlands.

Í símtali sínu áréttuðu May og Trump á þau mundu þróa „sérstakt samband“ Breta og Bandaríkjamanna áfram. Trump bauð May að heimsækja sig eins fljótt og verða mætti sagði breska forsætisráðuneytið.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, hvatti til þess föstudaginn 11. nóvember að menn litu til þeirra tækifæra sem fælust í stjórnarskiptunum í Bandaríkjunum í stað þess að formæla þeim. Hann sagði að Trump hefði lýst vilja til að gera fríverslunarsamning við Breta í samtalinu við Theresu May.

Síðdegis föstudaginn 11. nóvember birtist frétt á Telegraph.co.uk um að til þess kynni að koma að Bandaríkjamenn, Bretar og Kanadamenn gerðu með sér fríverslunarsamning.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …