
Bandaríski flotinn fékk laugardaginn 22. júlí formlega afhent nýtt flugmóðurskip Gerald R. Ford. Fullkomnasta skip flotans að sögn talsmanna hans og fyrst af nýrri gerð flugmóðurskipa.
Smíði skipsins hófst árið 2009 og átti að vera lokið árið 2011 en tafðist um tvö ár. Kostnaður við skipið átti að vera 11 milljarðar dollara en reyndist 13 milljarðar. Nú taka við reynslusiglingar til ársins 2020 sem talið er að kosti 780 milljónir dollara.
Með skipinu kemur til sögunnar ný gerð flugmóðurskipa sem tekur við af Nimitz-gerðinni sem tekin var í notkun árið 1975. Alls verða smíðuð þrjú skip af nýju gerðinni: John F. Kennedy og Enterprise auk Fords.
Skipið er um 100.000 tonn. Brúin og yfirbyggingin er minni en á Nimitz-gerðinni og aftar á flugþilfarinu vegna nýs flugtaks- og lendingarbúnaðar sem fjölgar flugtökum um 33% á dag.
Raforkuframleiðsla skipsins, rafræn stjórntæki og snertiskjáir spara mannskap um borð og eru 600 færri í áhöfn Ford en skipum af Nimitz gerð. Alls 2600 menn eru í áhöfninni, flotastjórnin segir að fækkunin í henni spari 4 milljarða í rekstrarkostnað á 50 ára starfsævi skipsins.
Sé skipiðið fullmannað flugáhöfnum og aðstoðarmönnum þeirra fjölgar mönnum um 2000 um borð í því.
Það er knúið kjarnakljúfi sem ekki þarf að hlaða í 20 ár og getur farið á meira en 30 mílna hraða.