Home / Fréttir / Nýtt ESB-þríeyki vekur enga gleði í Moskvu

Nýtt ESB-þríeyki vekur enga gleði í Moskvu

Ursula von der Leyen og António Costa.

Leiðtogaráð ESB komst að fimmtudaginn 27. júní að niðurstöðu um þau þrjú sem skipa æðstu ESB-embættin næstu fimm ár bregði ESB-þingið fæti fyrir þau síðsumars eða í haust: Þýska mið-hægrikonan Ursula von der Leyen verður áfram forseti framkvæmdastjórnar ESB. Portúgalski sósíalistinn António Costa verður forseti leiðtogaráðs ESB, Frjálslyndi eistneski forsætisráðherrann, Kaja Kallas, verður utanríkis- og öryggismálastjóri ESB.

Eftir að leiðtogaráðið kom saman til óformlegs kvöldverðarfundar mánudaginn 17. júní til að ræða næstu forystumenn ESB í ljósi úrslita kosninganna til ESB-þingsins 9. júní var látið í veðri vaka að einhver óvissa væri um hvort þessi þrjú yrðu fyrir valinu. Kurr væri í einhverjum. Á tíu dögum tókst greinilega að þæfa málið áfram til þessarar niðurstöðu.

Föstudaginn 28. júní bárust fréttir frá Moskvu um að Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, spáði því að tengslin milli ráðamanna í Moskvu og Brussel myndu ekki batna á næstunni með þetta fólk í stafni ESB.

„Við teljum ekki að utanríkismálasamskipti á vegum ESB færist í eitthvert eðlilegt horf við þetta,“ sagði Peskov. „Horfurnar í samskiptum ráðamanna í Moskvu og Brussel eru slæmar.“

Hann vék sérstaklega að Kallas og sagði hana „vel þekkta“ í Rússlandi „fyrir algjörlega ósæmilegan og stundum ofbeldisfullan fjandskap í garð Rússa í ræðum sínum“.

Kallas er í hópi hörðustu gagnrýnenda Kremlverja. Hún hefur látið fjarlægja sovésk minnismerki í Eistlandi og verið eindregin í stuðningi sínum við Úkraínumenn í varnarstríði þeirra við Rússa. Fyrir það er hún eftirlýst í Moskvu. Embættismaður ESB gekk svo langt að segja að henni þætti „gott að fá Rússa í morgunverð“.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …