
Vaxandi ógn er af þrýstingi Rússa gegn Dönum segir í nýju hættumati Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), eftirgrennslanaþjónustu danska hersins, það er þeirrar stofnunar í Danmörku sem safnar upplýsingum um ytri hættur sem kunna að steðja að danska ríkinu og íbúum þess. FE gaf út árlegt hættumat sitt þriðjudaginn 19. desember.
Við kynningu á matinu sagði Lars Findsen, forstjóri FE, að danskir þingmenn kynnu að verða næsta skotmark sérsniðinna þrýstiaðgerða frá Rússum. Markmið þeirra væri að beita þrýstingi til að hafa áhrif á ákvarðanir, löggjöf, kosningabaráttu eða opinberar umræður í Danmörku.
Í hættumatinu eru þrjú atriði sérstaklega tíunduð: afstaða Rússa, netárás og hryðjuverk. Dönum er talin stafa mest hætta af þessum ytri ógnum.
Lars Findsen benti á í mörgum vestrænum löndum hefðu Rússar beitt þrýstingi til að koma ár sinni fyrir borð og hætta vegna þessa væri að aukast í Danmörku. Rússar beiti sér ekki aðeins á markvissan hátt vegna einhverra á samfélagsmiðlum heldur beini nú spjótum sínum gegn einstaklingum, ríkisstjórnum og öðrum sem koma að töku ákvarðana í Evrópu. Fyrir þeim vaki að vinna rússneskum málstað fylgi eða skapa óvissu um trúverðugleika vestrænna stjórnmálamanna.
Forstjóri FE sagði að án eða með mjög litlum fyrirvara kynnu Danir að verða fyrir þrýstingi af hálfu Rússa. Það væri mjög líklegt að þeir myndu sérsníða slíka herferð til að hafa sem mest áhrif í Danmörku.
Í hættumatinu er talið að líkur á netárás á Dani séu mjög miklar og þar standi erlend ríki að baki.
Bent er á að Rússar auki hernaðarmátt sinn í vesturhluta Rússlands og við Eystrasalt. Þó er talið „ólíklegt“ að þeir beiti herafla sínum beint gegn Eystrasaltsríkjunum.
Veruleg hætta er talin á að hryðjuverk ógni öryggi Dana.
Rússar kunna til dæmis að hafa mikla hagsmuni af að hafa áhrif á ákvarðanir Dana um öryggismál og Eystrasalt, þar á meðal um umdeild rússnesk áform um að lögð sé gasleiðslan Nord Stream 2. Þá hafi Rússar einnig áhuga á öllu sem varðar ákvarðanir Dana um norðurslóðamál og yfirráð á landgrunninu frá Grænlandi í átt að norðurpólnum en þar kunna Danir og Rússar að deila um markalínu.
Lars Findsen segir að Rússar kunni að reyna að reka fleyg í danska ríkjasambandið, það er milli Dana og Grænlendinga. Sundrung innan þess geti veikt samningsstöðu Dana gagnvart Rússum.
FE segir að í netheimum noti Rússar mismunandi leiðir og tæki til að koma ár sinni fyrir borð. Beitt sé aðferðum og einstaklingum sem geri ókleift að rekja aðgerðir til rétta upphafsmannsins í Rússlandi. Reynt sé að leyna hlut rússneska ríkisins með öllum tiltækum ráðum. Leitað sé til milliliða til að láta í ljós skoðanir á samfélagsmiðlum. Þá noti Rússar einnig fjölmiðla, hugveitur og rannsóknastofnanir sem ranglega eru sagðar án tengsla við rússneska ríkið, segir FE.
FE telur að Danir verði að verjast hvar sem er innan samfélagsins vilji þeir standast þrýsting Rússa. Fyrir utan skyldu danskra yfirvalda til að rekja og uppræta upplýsingafalsanir telur FE að stjórnmálamenn, almenningur og danskir fjölmiðlar verði hafa augun opin fyrir hættunni. FE telur nauðsynlegt að á þessum vanda sé tekið strax í grunnskólum landsins og kennarar verði hvattir til gagnrýni á það sem sé augljóslega rangt.