Home / Fréttir / NYT um ákæruna gegn Trump og afstöðu Lisu Murkowski

NYT um ákæruna gegn Trump og afstöðu Lisu Murkowski

Lisa Murkowski
Lisa Murkowski

Frá því föstudaginn 3. janúar hafa allar umræður í Bandaríkjunum – og í fjölmiðlum annars staðar – snúist um morðið á íranska hershöfðingjanum Soleimani. Enginn veit hvaða dilk það dregur á eftir sér. Sumir segja að með því að samþykkja aðgerðina hafi Donald Trump Bandaríkjaforseti viljað beina athygli frá vandanum sem að honum steðjar á heimavelli vegna ákæru fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á hendur honum. Víst er að því máli er ekki lokið á Bandaríkjaþingi. Í þessum leiðara sem The New York Times (NYT) birti laugardaginn 28. desember 2019 er brugðið ljósi á stöðu ákærumálsins.

Hátíðarfríið hefur til þessa veitt Trump forseta lítið tóm til að hvíla sig. Hann hefur varið miklu af tíma sínum til að láta í ljós vanþóknun á óréttlætinu sem hann telur felast í ákærunni gegn sér.

Að morgni þriðjudags [24. desember, aðfangadags] var forsetinn í Mar-a-Lago setri sínu [á Flórída] og skýrði blaðamönnum frá áliti sínu á ákvörðun Nancy Peolsi, forseta fulltrúadeildarinnar, um að neita að afhenda öldungadeildinni formleg ákæruskjöl gegn forsetanum fyrr en hún fengi betur skýrt fyrir sér hvernig réttarhaldinu yrði háttað. Forsetinn sagði neitunina skrípaleik. „Þau komu fram við okkur af ósanngirni og nú vilja þau sanngirni í öldungadeildinni.“

Á aðfangadagskvöld hafði Trump sótt í sig veðrið. „Hvers vegna að leyfa vitlausu Nancy Pelosi að ákæra forseta Bandaríkjanna þótt hún hafi smá meirihluta í fulltrúadeildinni?“ spurði hann á Twitter.

Stutta svarið: Vegna þess að þannig er skiptingu valdsins háttað. Og þetta segir stjórnarskráin þegar háttsettur embættismaður stundar valdníðslu.

Fulltrúadeildin stóð að þessu „svindli“ án „réttlátrar málsmeðferðar, viðunandi málsvarnar eða vitna,“ fullyrti forsetinn, ranglega. „Nú krefst Pelosi alls þess sem repúblíkanar máttu ekki í fulltrúadeildinni. Demókratar vilja stjórna meirihluta repúblíkana í öldungadeildinni. Hræsnarar!“

Æðiskastið stóð fram á fimmtudag. „Róttæka vinstrið, duglausu demókratarnir sögðu að þeir vildu HRAÐA öllu í gegnum fulltrúadeildina vegna þess að ‘Trump forseti ógnar þjóðaröryggi´ (þeir eru siðlausir, segja hvað sem er!), en nú vilja þeir ekki lengur flýta sér, þeir vilja fara löturhægt. Lygarar!“

Til glöggvunar: Trump og lögfræðingar hans létu hjá líða að taka þátt í rannsókn fulltrúadeildarinnar. Stjórn hans hafnaði óskum um vitni og skjöl, á hverju stigi var tafið fyrir rannsókninni með því að leita til dómstóla. Þrátt fyrir þetta var kynnt til sögunnar svo mikið af neikvæðum vitnisburði að verjendur forsetans hafa að mestu leyti skotið sér undan að verja framgöngu hans en í stað þess leitað skjóls í villandi aðfinnslum um gang málsins.

Nú þegar forsetinn stendur frammi fyrir ákæru um valdníðslu og fyrir að hafa lagt stein í götu fulltrúadeildarinnar í störfum hennar, treystir forsetinn á að Mitch McConnell, meirihlutaleiðtogi í öldungadeildinni, ýti þessu öllu á brott. „Hann er mjög klár maður, mjög góður maður, mjög sanngjarn maður,“ rausaði Trump fjálglega á þriðjudag [24. desember].

Svo virðist sem traust forsetans hafi ratað á réttan stað. Mánuðum saman hefur McConnell hampað sjálfum sér sem þvertré gegn brottrekstri Trumps. McConnell ræddi 12. desember við þáttarstjórnandann Sean Hannity og fullvissaði áhorfendur um að „útilokað“ væri að forsetinn yrði rekinn og hét því að „samstilla allt“ með mönnum forsetans í Hvíta húsinu.

Daginn eftir að fulltrúadeildin samþykkti ákæruna flutti McConnell ræðu í öldungadeildinni og fór mörgum orðum um ágallana á rannsókn fulltrúadeildarinnar, hann sagði ákæruatriðin í „ósamræmi við stjórnarskrána“ og lýsti því sem „skyldu“ öldungadeildarinnar að binda enda á það sem hann kallaði árás á reglur og fordæmi.

Markmið McConnells er að réttarhöldin verði aðeins til málamynda. Honum er illa við að leyfa vitni; hann hefur lýst vilja til að keyra allt í gegn á flokksatkvæðum; og – eins og áður var sagt – hann hefur þegar tilkynnt hver lokaniðurstaðan verður.

Sumum sem fylgjast með málinu kann að þykja skrýtið að McConnell skuli allt í einu núna hafa áhyggjur af ferli máls, fordæmum og réttarreglum. Þetta er sami Mitch McConnell sem lét hjá líða í næstum eitt ár að taka fyrir skipun hæstaréttardómara til að gera Barack Obama forseta ókleift að nýta rétt sinn til að velja mann í dóminn; maðurinn sem fínstillti hvað eftir annað reglur öldungadeildarinnar til auðvelda þeim dómaraefnum sem Trump tilnefndi leiðina; maðurinn sem hefur kverkatak á öldungadeildinni – þvælist fyrir umræðum, reitir þingmenn beggja flokka til reiði og nýtur þess ríkulega að vera lýst sem „óbilgjarna manninum með ljáinn“ í þinghúsinu.

Það er rétt hjá Trump að ákæruferlið hefur afhjúpað hræsni í þinghúsinu. Hann misskilur hins vegar uppsprettu hennar.

Þegar litið er til þess hve háll McConnell er getur verið að hástemmdur stuðningur hans við verjendur Trumps sé ekki annað en þægileg leið til að styrkja eigin stöðu. Eftir að hafa básúnað hollustu sína á þennan hátt skapar meirihlutaleiðtoginn sjálfum sér svigrúm til að hafna eigin ábyrgð fari svo að gangur einhvers þáttar málsins valdi mönnum í Hvíta húsinu leiðindum.

Heitstrenging McConnells um að öldungadeildin þjóni Trump skapar öðrum þingmönnum repúblíkana undarlega stöðu – að minnsta kosti þeim sem hafa áhuga á viðhalda snefil af sjálfstæði og heiðarleika. Og í þessari viku mátti greina örlítinn brest í samstöðu þeirra.

Á aðfangadagskvöld var rætt við Lisu Murkowski, öldungadeildarþingmann frá Alaska, í sjónvarpsstöð í Anchorage. [Hún hefur oft komið til Íslands vegna norðurslóðamála og starfar náið með Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrv. forseta.] Þar sagði hún að heitstrenging McConnells um að samræma störf sín og lögfræðinga Trumps „truflaði“ sig. Það væri rangt að „fella dóm fyrir fram“ í þessu máli, sagði hún. „Í mínum huga þýðir þetta að við verðum að stíga til baka til þess að vera ekki samstiga verjendunum.“ Hún harmaði að McConnell hefði „flækt ferlið enn frekar“.

Murkowski er þekkt fyrir sjálfstæði sitt og hefur sýnt að hún er óhrædd við að rísa gegn flokki sínum og forseta, má þar nefna andstöðu hennar við tilnefningu Bretts Kavanaughs í hæstarétt í fyrra. Að þessu sögðu skal tekið fram að ekki ber að líta á gagnrýni hennar sem merki um að hún muni greiða atkvæði með brottrekstri Trumps. Murkowski hefur einnig gagnrýnt ákærurannsókn fulltrúadeildarinnar, það hafi verið illa að henni staðið og af of miklum hraða.

Murkowski skapar sér hins vegar sérstöðu með því að lýsa áhyggjum sínum í flokki sem er svo mjög undir hælnum á forsetanum að flestir þingmanna hans veigra sér við að finna að jafnvel alfurðulegustu framkomu hans. Öldungadeildarþingmaðurinn sendir skilaboð til kjósenda sinna og McConnells um að hún vilji ekki að litið verði á sig sem gúmmístimpil undir fyrirframgefna sýknu. Hún tekur opinberar skyldur sínar alvarlegar en flokkshollustu og það er hægt að ýta henni of langt.

Það væri þakkarvert ef fleiri samflokksmönnum hennar liði eins.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …