Bandaríska blaðið The New York Times er andvígt Donald Trump Bandaríkjaforseta, stjórn hans og repúblíkanaflokknum. Í blaðinu miðvikudaginn 15. febrúar 2017, birtist leiðari vegna afsagnar þjóðaröryggisráðgjafa Trumps. Í leiðaranum er brugðið ljósi á málið sem gefur til kynna hvert umræður þróast í Bandaríkjunum þar sem flokkadrættir eru miklir og magnast. Hér birtist leiðarinn í heild í lauslegri þýðingu:
Trump forseti kann að hafa talið að brottför Michaels Flynns, þjóðaröryggisráðgjafa síns, mundi binda enda á deilurnar um tengsl stjórnar hans við Rússa, skaðvænlegum uppljóstrunum er þó ekki lokið. Allt klúðrið er til marks um að undir hans forystu ríkir óstjórn og óheiðarleiki innan Hvíta hússins auk þess sem það sýnir hve illa hann og starfslið hans er búið undir að vernda þjóðina.
Ólíklegt er að Flynn hefði verið látinn fara ef ekki hefði birst uppljóstrun í The Washington Post á mánudeginum [13. febrúar] um að dómsmálaráðuneytið hefði sagt starfsmönnum Hvíta hússins í janúar að Flynn hefði blekkt háttsetta embættismenn um efni símtals við rússneska sendiherrann. Ráðuneytið sagði mönnum í Hvíta húsinu að þvert á það sem Flynn segði hefði hann rætt refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn Rússum við sendiherrann. Ósamræmið milli þess sem Flynn sagði opinberlega og hins sem Rússar (og bandarískir leyniþjónustumenn) vissu skapaði hættu á að Rússar kynnu að ná taki á Flynn. Innan Hvíta hússins þótti mönnum hins vegar greinilega ekki þörf á að bregðast við þeirri hættu svo framarlega sem halda mætti henni leyndri fyrir almenningi.
Á þriðjudeginum [14. febrúar] viðurkenndu starfsmenn Hvíta hússins að fyrir meira en tveimur vikum hefði Trump verið sagt frá blekkingu Flynns þótt forsetinn kysi á föstudeginum [10. febrúar] að segja blaðamönnum að hann vissi ekkert um fréttir þess efnis. Flynn, skap- og hugsjónaofsamaður, var aldrei hæfur sem þjóðaröryggisráðgjafi. Að Trump hafi haldið í svo gallaðan mann í svo viðkvæmri stöðu er í besta falli til marks um botnlausan dómgreindarbrest. Allt fram á mánudag sat Flynn trúnaðarfundi um öryggismál og hafði aðgang að forsetanum.
Í afsagnarbréfi sínu sagði Flynn að hann hefði gefið háttsettum embættismönnum „ófullnægjandi upplýsingar“ um símtalið. Fulltrúar FBI [alríkislögreglunnar] ræddu um sama mál við Flynn nokkrum dögum eftir innsetninguna, eins og sagt var frá í The NY Times á þriðjudeginum [14. febrúar]. Af því leiðir að hann stendur hugsanlega frammi fyrir ákæru vegna alvarlegs afbrots hafi hann einnig logið að þeim. Sama þriðjudag var einnig sagt frá því í The NY Times að starfandi og fyrrverandi bandarískir embættismenn segðu að aðrir menn tengdir Trump og kosningastarfsmenn hefðu hvað eftir annað verið í sambandi við háttsetta rússneska leyniþjónustumenn árið í aðdraganda kosninganna.
Flynn og Sergeij Kisljak, sendiherra Rússa, höfðu verið í sambandi í kosningabaráttunni og eftir að Barack Obama forseti greip til refsiaðgerða gegn Rússum 29. desember vegna innbrota þeirra í kosningatölvur demókrata, væntanlega til að leggja Trump lið í baráttunni ef marka má leynilegar skýrslur og opinberar heimildir sem vitnað er til í The Washington Post. FBI hafði fylgst með fjarskiptum Kisljaks og komist þannig að sambandi hans við Flynn.
Sally Yates, starfandi dómsmálaráðherra, taldi hleruðu símtölin „verulega athyglisverð“ og „hugsanlega lögbrot“ samkvæmt Logan-lögunum sem banna einkaaðilum að blanda sér í stjórnmáladeilur við önnur ríki. Þegar upplýsingum um Flynn-Kisljak símtalið var lekið 12. janúar neitaði starfsmaður Trumps að refsiaðgerðir hefðu verið ræddar í því. Sean Spicer, talsmaður Hvíta hússins, gaf svipað svar 13. janúar og sama er að segja um Mike Pence varaforseta 15. janúar. Eftir að Trump hafði tekið við forsetaembættinu sagði Spicer 23. janúar að Flynn hefði enn á ný fullvissað sig um að ekki hefði verið rætt um refsiaðgerðir. Skömmu síðar ákvað Yates með samþykki James Conways, forstjóra FBI, að upplýsa Donald McGahn, ráðgjafa í Hvíta húsinu, um það sem raunverulega gerðist.
Mörgum spurningum er ósvarað. Veitti einhver í Hvíta húsinu Flynn heimild til að stofna til þessara samskipta? Hvers vegna hefur Trump ekki skammað hann fyrir að ræða um refsiaðgerðir við Rússa á meðan hann var enn ekki orðinn embættismaður?
Allt leiðir þetta til meiri þrýstings á þingmenn. Þótt sumir helstu öldungadeildarþingmanna repúblíkana hafi heitið því að dýpka enn frekar rannsókn sína á afskiptum Rússa af kosningunum hefur svar flokks þeirra verið ábyrgðarlaust þegar á heildina er litið. „Mér sýnist málið hafi sinn gang,“ sagði Jason Chaffetz, formaður eftirlits- og rannsóknarnefndar fulltrúadeildar þingsins, á þriðjudeginum [14. febrúar] um Flynn. Devin Nunes, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar, var álíka kaldranalegur: „Manni virðist helst að þetta snúist um mikið af engu.“ Ekki má gleyma Rand Paul sem tók flokkshagsmuni fram yfir þjóðaröryggi þegar hann sagði „það er tilgangslaust“ að repúblíkanar rannsaki repúblíkana.
Gleymum ekki að repúblíkanar höfðu Hillary Clinton næstum tvö ár í gapastokknum fyrir að nota eigin netþjón fyrir tölvubréf sín, vissulega var það slæm ákvörðun en hún skapaði þjóðinni þó ekki neina hættu. Þeir stofnuðu einnig til átta gagnslausra rannsókna á hlut Clinton sem utanríkisráðherra þegar árásin var gerð í Benghazi.
Nú virðast þessir sömu repúblíkanar ætla að aðstoða Trump við að fela sannleikann með því að neita að rannsaka tölvuinnbrot Rússa og aðrar tilraunir til að hafa áhrif á kosningarnar 2016 og jafnframt samband Trump við Rússa og hrifningu á Vladimír Pútín forseta.
Á þessari stundu er ekkert brýnna verkefni sem bíður Trumps en að skipa reyndan þjóðaröryggisráðgjafa sem er hafinn yfir allar ásakanir. Á sama tíma og ringulreið ríkir í heiminum berst þriggja vikna gömul stjórn hans við heimatilbúin vandamál sem einkennast af endurteknum lygum og hæfnisskorti eða ef til vill einhverju verra.