Home / Fréttir / Nýrkjörinn forseti Finna fylgir sömu meginstefnu og Niinistö

Nýrkjörinn forseti Finna fylgir sömu meginstefnu og Niinistö

Alexander Stubb

 

Aldrei hefur forseti Finnlands verið kjörinn með naumari meirihluta en Alexander Stubb, frambjóðandi mið-hægri Sameiningarflokksins, sunnudaginn 11. febrúar. Hann fékk 51,6% í annarri umferð kosninganna en græninginn Pekka Haavisto 48,4%.

Stubb hélt blaðamannafund mánudaginn 12. febrúar og hét því að verða forseti allrar finnsku þjóðarinnar. Hann verður settur inn í embætti sem 13. forseti Finnlands 1. mars nk.

Stubb sagðist ætla að sækja árlega öryggisráðstefnu í München í lok vikunnar. Hann gerði það þó ekki sem forseti Finnlands enda sæti Sauli Niinistö enn í embættinu en hann var kjörinn í það árið 2012.

Stubb sagðist ætla að fylgja sömu meginstefnu í utanríkis- og öryggismálum og Niinistö hefði gert. Finnlandsforseti hefur stefnumótandi hlutverki að gegna á báðum þessum sviðum. Í því fælist öflugur stuðningur við Úkraínu.

Bæði Niinistö og Stubb eru fyrrverandi formenn Sameiningarflokksins fyrir utan að hafa báðir verið varaforsetar Evrópska fjárfestingarbankans.

Stubb hvatti til þess að NATO efldi evrópska stoð sína. Hann lagði áherslu á að Finnar og allar þjóðir álfunnar yrðu að axla ábyrgð á eigin varnarstyrk.

Verðandi Finnlandsforseti sem hefur stöðu undirliðþjálfa í finnska hernum sagðist ætla að gegna „virku hlutverki“ sem æðsti yfirmaður finnska heraflans.

Stubb sagðist ætla að móta utanríkisstefnu Finnlands í nánum tengslum við ríkisstjórnina. Það ætti ekki að vera erfitt með hliðsjón af því að Sameiningarflokkurinn er stærsti ríkisstjórnarflokkurinn með flesta ráðherra, þeirra á meðal Pettri Orpo forsætisráðherra, Elinu Valonen utanríkisráðherra og Antti Häkkänen varnarmálaráðherra.

Hann sagði að fyrsta ferð sín sem forseta yrði mjög líklega til Svíþjóðar sem hann sagði „í raun aðila að NATO“ þótt ungverska þingið hefði ekki enn samþykkt aðildina.

Stubb þakkaði keppinaut sínum, Pekka Haavistoi, en hann var sigurvegari í flestum fjölmennum borgum Finnlands og í norðurhluta landsins, það er Helsinki, Turku, Tampere, Jyväskylä og Oulu fyrir utan stærsta hluta Lapplands og Álandseyjar.

Stubb naut meira fylgis í úthverfum Helsinki, Espoo, Vantaa og Kauniainen fyrir utan smábæi og sveitahéruð.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …