Home / Fréttir / Nýr utanríkisráðherra í Noregi

Nýr utanríkisráðherra í Noregi

Espen Barth Eide, nýr utanríkisráðherra Noregs.

Barth Eide varð utanríkisráðherra Noregs mánudaginn 16. október og tekur við embættinu af flokkssystur sinni í Verkamannaflokknum, Anniken Huitfeld, sem hverfur úr stjórninni en situr áfram á stórþinginu.

Huitfeldt hættir sem ráðherra vegna ásakana um að hún hafi ekki gætt reglna um hagsmunaárekstra þegar eiginmaður hennar keypti hlutabréf í vopnasmiðjunni Kongsberg Gruppen á meðan hún sat í ráðherraembætti.

Þegar upplýst var um hlutabréfakaupin í ágúst sl. sagði Huitfeldt að sér hefði ekki verið kunnugt um þau og þess vegna hefði ekki verið um neitt brot á reglum að ræða af sinni hálfu.

Þá tók Jonas Gahr Støre forsætisráðherra málstað utanríkisráðherrans og vildi að hvað sem hugsanlegum hagsmunaárekstri liði sæti hún áfram sem ráðherra enda tryði hann frásögn hennar um skort á vitneskju um viðskiptin.

Skömmu fyrir norsku sveitarstjórnarkosningarnar í september bárust hins vegar fréttir um stórfelld hlutabréfaviðskipti eiginmanns formanns Hægriflokksins, Ernu Solberg, á átta árum meðan hún var forsætisráðherra. Hefur hún síðan viðurkennt að líti hún til baka hafi hún verið vanhæf í nokkrum tilvikum vegna þessara viðskipta þótt hún hafi ekki vitað um þau.

Stjórnmálaskýrendur segja að það hafi verið erfitt fyrir Støre og aðra málsvara Verkamannaflokksins að sækja að Solberg vegna viðskipta eiginmanns hennar á sama tíma og einn ráðherra flokksins glímdi við svipað vandamál.

Ola Borten Moe, ráðherra rannsókna og æðri menntunar í Noregi, baðst lausnar í júlí sl. þegar í ljós kom að hann hefði keypt hlutabréf í Kongsberg Gruppen vopnasmiðjunni. Borten Moe viðurkenndi að hann hefði gerst sekur um hagsmunaárekstur þar sem hann væri í ríkisstjórn sem hefði samið um 2,6 milljarða NKR viðskipti við NAMMO en Kongsberg Gruppen á 25% hlut í fyrirtækinu. Borten Moe hafnaði því að hann hefði gerst sekur um innherjaviðskipti.

Espen Barth Eide gegndi embætti umhverfisráðherra þar til hann settist í stól utanríkisráðherra. Hann hóf störf innan norska stjórnarráðsins árið 2000 þegar hann varð aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Hann gegndi sama starfi árið 2010 þar til hann var skipaður varnarmálaráðherra. Hann varð ári síðar utanríkisráðherra og gegndi embættinu þar til Verkamannaflokkurinn tapaði í þingkosningunum árið 2013.

 

Heimild: Barents Observer.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …