
Nýr utanríkisráðherra hefur verið skipaður í Noregi. Varnarmálaráðherra Ine Eriksen Søreide (41árs) verður utanríkisráðherra eftir að Børge Brende, fráfarandi utanríkisráðherra, hverfur til starfa hjá World Economic Forum (WEF) í Sviss. Frank Bakke-Jensen verður varnarmálaráðherra og Marit Berger Røsland Evrópumálaráðherra.
Nú eru þrjár konur í helstu ráðherraembættum Noregs, hægrikonurnar Erna Solberg forsætisráðherra og Ine Eriksen Søreide og formaður Framfaraflokksins, Siv Jensen, fjármálaráðherra.
Gro Harlem Brunndtland, Verkamannaflokknum, varð fyrsta konan til að verða forsætisráðherra Noregs árið 1981. Kristen Halvorsen, Sósíalíska þjóðarflokknum, varð fyrst til að verða fjármálaráðherra Noregs árið 2005. Föstudaginn 20. október 2017 verður kona í fyrsta sinn utanríkisráðherra Noregs.
Hægrimaðurinn Frank Bakke-Jensen (52 ára) var Evrópumálaráðherra áður en hann verður nú varnarmálaráðherra. Hann kemur frá Båtsfjord i Finnmörku, nyrsta fylki Noregs.
Marit Berger Røsland (41 árs) var aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneytinu þar til hún tekur nú við embætti Evrópumálaráðherra.
Ine Eriksen Søreide er lögfræðingur og lét að sér kveða í ungliðahreyfingu Hægriflokksins á sínum tíma en hún hefur setið á norska stórþinginu síðan 2001. Hún hefur verið athafnasöm sem varnarmálaráðherra síðan 2013 og í fyrra var langtímaáætlun hennar í varnarmálum samþykkt í stórþinginu með stuðningi stjórnarandstæðinga úr Verkamannaflokknum.
Þegar Erna Solberg kynnti nýja utanríkisráðherrann sagði hún að staða hennar á alþjóðavettvangi væri einstök. Forsætisráðherrann sagði að hitti hún fulltrúa annarra landa á sviði öryggismála hefðu þeir jafnan á orði að varnarmálaráðherra Noregs væri framúrskarandi. Hún á eftir að standa sig frábærlega vel sem utanríkisráðherra, sagði Solberg.
Frank Bakke-Jensen var Evrópumálaráðherra frá 2016 þar til nú. Hann var bæjarstjóri í Båtsfjord frá 2007 þar til hann var kjörinn á stórþingið árið 2009. Áður var hann rafvirki um borð í skipi sem sigldi milli Hammerfest og Tromsø, þá hefur hann einnig starfað við kennslu og sem einkaflugmaður í Båtsfjord. Hann var á sínum tíma í friðargæsluliði Norðmanna í Líbanon.
Marit Berger Røsland (41) hefur setið í borgarstjórninni í Osló. Þegar Erna Solberg kynnti hana sem Evrópumálaráðherra sagði forsætisráðherrann að miklu skipti að hafa sérstakan ráðherra með ábyrgð á þessum málaflokki nú þegar Bretar væru á leið úr ESB.