Home / Fréttir / Nýr tónn í varnarstefnu Bandaríkjastjórnar vegna norðurslóða

Nýr tónn í varnarstefnu Bandaríkjastjórnar vegna norðurslóða

Bandarískur kafbátur í Norður-Íshafi.
Bandarískur kafbátur í Norður-Íshafi.

Malte Humpert, blaðamaður vefsíðunnar High North News segir föstudaginn 7. júní að í nýrri stefnu bandaríska varnarmálaráðuneytisins vegna norðurslóða komi fram að framvinda mála þar sé háð mikilli óvissu og þar séu „strategískir undirstraumar sem bendi til vaxandi vandamála“.

Í skjalinu segir að margt jákvætt sé að gerast á norðurslóðum og þjóðir þar vilji starfa saman en í öryggismálum sé staðan flókin og „strategísk samkeppni“ ríki á svæðinu.

Sá er munurinn á þessu stefnuskjali að sögn blaðamannsins og fyrri slíkra skjala að nú telji Bandaríkjastjórn svæðið vera tengingu milli strategískra athafnasvæða á Kyrrahafi annars vegar og í Evrópu hins vegar og þar með „leið fyrir stórvelda samkeppni og ágengni“.

Þá er sagt að í skjalinu megi sjá merki um það sama og kom fram i ræðu sem Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, flutti í Rovaniemi í Finnlandi daginn fyrir ráðherrafund Norðurskautsráðsins í byrjun maí. Ráðherrann beindi spjótum sínum sérstaklega að Rússum og Kínverjum. Til þessa hafa Bandaríkjamenn lítið rætt um Kínverja í skýrslum vegna norðurslóða. Nú er hins vegar vísað til þeirra meira en 20 sinnum.

Bent er á að rannsóknir Kínverja á vegum borgaralegra stofnana kunni að nýtast kínverska hernum á norðurslóðum þegar fram líða stundir. Hönnun og smíði Kínverja á kjarnorkuknúnum ísbrjóti kunni að vera undanfari kjarnorkuknúinna flugmóðurskipum.

Þá beinist athygli ráðuneytisins að tilraunum Kínverja til að ná fótfestu á norðurslóðum með fjárfestingum og nýta þær til pólitískra áhrifa. Fráleitt sé að líta á Kína sem „nágrannaríki norðurskautsins“ og varað við því að kínversk stjórnvöld noti stefnuna sem kennd er við belti og braut til að ná pólitískri fótfestu.

Í stefnuskjalinu segir að Rússar ráði yfir mestum herafla norðan heimskautsbaugs. Bent er á markvissa framkvæmd stefnu Rússa um fjölgun herstöðva við Norður–Íshaf.

Rússar eru sakaðir um að brjóta alþjóðalög við stjórn siglinga um Norðurleiðina, þeir hóti til dæmis að beita þá valdi sem neiti að fara að rússneskum reglum við stjórn skipa á þessum slóðum. Þarna beri að virða siglinga- og flugfrelsi

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …