Home / Fréttir / Nýr rússneskur kafbátur á teikniborðinu

Nýr rússneskur kafbátur á teikniborðinu

Rússneskur kafbátur af Yasen-gerð.
Rússneskur kafbátur af Yasen-gerð.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Með nokkurri einföldun má segja að kafbátarnir í vopnabúrum ýmissa sjóherja séu af tvennum toga. Annars vegar eru það eldflaugakafbátar (e. missile submarines). Þekktustu tegundir þeirra eru þær sem geyma langdræg kjarnorkuvopn svo sem eins og Ohio kafbátar Bandaríkjamanna. Þeir, og önnur stórveldi, nota þá sem stoð í fælingarstefnu sinni. Hins vegar eru svokallaðir árásarkafbátar (e. attack submarines) sem hafa m.a. það hlutverk að leita að og fylgjast með eldflaugakafbátum andstæðinganna.

Í bandaríska tímaritinu Forbes segir að ný tegund rússnesks árásarkafbáts hafi af tilviljun komið fyrir sjónir almennings í rússnesku sjónvarpi fyrir stuttu. Reyndar telja ýmsir að ekki hafi verið um mistök að ræða heldur hafi átt að sýna umheiminum að kafbáturinn væri í þróun hjá rússneska hernum. Nýja kafbáta-tegundin kallast Laika á rússnesku, sem útleggst sem Husky á ensku (sleðahundur), enda er Laika nafn á rússneskum veiðihundum sem notaðir eru í Síberíu.

Laika kafbátarnir eru óhefðbundnir árásarkafbátar að því leyti að auk tundurskeyta munu þeir geta borið ýmsar gerðir stýriflauga. Því má kalla þá fjölnota kafbáta. Meðal þeirra flauga sem Laika bátarnir eiga að gera borið eru svokallaðar Kalibr stýriflaugar sem skjóta má á skotmörk á landi. Í bók sinni The New Battle for the Atlantic nefnir Magnus Nordenman, sérfræðingur í sjóhernaði, að þessar flaugar gætu orðið NATO mjög skeinuhættar ef átök brytust út milli bandalagsríkjanna og Rússlands.

Í grein Forbes eru Laika kafbátarnir bornir saman við árásarkafbáta af Virginíugerð sem bandaríski flotinn notar enda eigi tegundirnar ýmislegt sameiginlegt. Þannig séu þær báðar hugsaðar sem arftakar dýrari kafbátategunda. Virginíubátarnir tóku við af svokölluðum sæúlfs bátum (e. Seawolf) sem ekki þótti þörf á eftir að kalda stríðinu lauk. Einungis þrír sæúlfs kafbátar voru smíðaðir.

Laika bátarnir líklega ekki kosta Rússa jafn mikið og Yasen/Graney fjölnotabátarnir sem nú eru í smíðum. Yasen og Laika bátunum er ætlað að koma í stað Akula ( hákarl) árásarkafbátanna. Hafist var handa við smíði Akula bátanna nokkru áður en Sovétríkin liðu undir lok og því eru þeir flestir komnir talsvert til ára sinna. Einn Yasen/Graney bátur, Severodvinsk, hefur verið tekinn í notkun en markmið Rússa er að bátarnir verði alls níu talsins.

Ýmislegt er einnig sameiginlegt með tækni Laika og Virgíniu bátanna. Þegar hefur verið nefnt að frá Laika bátunum er unnt að skjóta stýriflaugum. Sú tækni er líka í kafbátum af Virginíugerð sem gerir þá að fjölnotabátum. Forbes segir hljóðsjártækni (sónar) tegundanna einnig svipaða. Kafbátar nota hljóðsjá til þess að „sjá í kringum sig“, þetta er því lykiltækni í hverjum kafbáti og leggja hönnuðir sig fram um að hljóðsjá (sónar) báta þeirra sé sem best.

Nýju Laika bátarnir verða háþróaðir og hætt er við að þeir veki áhyggjur í ríkjum Atlantshafsbandalagsins. Reiknað er með að fyrsti báturinn verði smíðaður í lok þessa áratugar. Vegna þessarar þróunar hafa NATO ríkin lagt aukna áherslu á varnir á heimshöfunum. Þannig eru bæði bandaríski og breski flotinn að þróa nýjar tegundir af kafbátum sem eiga að viðhalda yfirburðum NATO ríkjanna á Norður-Atlantshafi og annars staðar.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …