Home / Fréttir / Nýr rússneskur ísbrjótur á Norðurpólnum

Nýr rússneskur ísbrjótur á Norðurpólnum

arktika-at-north-pole

Nýr ísbrjótur Rússa, Arktika, sigldi á Norðurpólinn í fyrstu reynslusiglingu sinni um ísinn á Norður-Íshafi. Skipið er öflugasti ísbrjótur heims og flaggskip fimm skipa af þessari gerð sem Rússar ætla að eignast.

Arktika hélt frá St. Pétursborg við Eystrasalt 22. september. Um borð eru fulltrúar frá Baltic-skipasmíðastöðinni þar sem ísbrjóturinn var smíðaður og einnig frá Rosatomflot, verðandi eiganda skipsins.

Að kvöldi laugardags 3. október sigldi Arktika yfir Norðurpólinn um meðalþykkan ís segir í tilkynningu skipasmíðastöðvarinnar.

Rússar hafa ekki eignast nýja kynslóð af kjarnorkuknúnum ísbrjótum í 30 ár. Arktika er 173 m að lengd, 34 metra breitt og alls 33.500 tonn. Þrjár rafvélar geta mest framleitt 60 MW sameiginlega.

Gert er ráð fyrir að fjórir ísbrjótar af sömu gerð bætist í flotann á næstu fimm árum. Tveimur skipum, Sibir og Ural, hefur nú þegar verið hleypt af stokkunum, fjórða skipið er í smíðum og þess er beðið að framkvæmdir hefjist við það fimmta.

Þegar Arktika snýr til Múrmansk úr reynslusiglingunni er þess vænst að Rosatomflot sem annast rekstur kjarnorkuknúnu ísbrjótanna taki formlega við skipinu og í vetur verði það við störf á Norðurleiðinni, siglingaleiðinni fyrir norðan Rússland.

Arktika siglir í kjölfar sögufrægs forvera síns, ísbrjótsins sem bar fyrstur nafnið Arktika og þjónaði Rússum frá 1975 til 2008. Nýja skipinu er siglt til Norðurpólsins nú réttum 43 árum eftir að fyrra skipið varð fyrst ofansjávarskipa til að komast á Norðurpólinn í ágúst 1977.

Nýju ísbrjótunum fimm er ætlað að halda siglingaleiðinni fyrir norðan Rússland opinni allan ársins hring. Með skipunum er unnt að brjóta allt að 3 m þykkan ís á stöðugri siglingu og enn þykkri ef skipið er látið höggva sig í gegnum ísinn með rykkjum fram og til baka.

Skipin munu til dæmis fylgja olíu- og gasflutningaskipum austur ísbreiðu Norðurleiðarinnar til markaða á Kyrrahafssvæðinu í Asíu.

Smíði Arktika hófst í nóvember 2013 í Baltic-skipasmíðastöðinni, Sibir í maí 2015 og Ural í júlí 2016.

Nokkrar tafir urðu vegna ýmissa vandræða á smíðatíma Arktika og leiddu þær til umræðna um að hugsanlegir gallar á hönnun skipsins kynnu að minnka afl þess og endingu. Þótt þykkt íss á Norðurpólnum sé ekki eins mikil á þessum árstíma og þarf til að láta reyna á allt afl Arktika er litið á reynslusiglinguna sem staðfestingu á þeirri fullyrðingu rússneskra yfirvalda að þau ráði yfir ísbrjótum sem geti farið um allt Norður-Íshaf hvenær árs sem er.

Heimild; High North News

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …