Home / Fréttir / Nýr NATO-herstyrkur í norðri

Nýr NATO-herstyrkur í norðri

Þrjár þjóðir – eitt markmið: F-35 frá Noregi, JAS 39 Gripen frá Svíþjóð og F/A-18 frá Finnlandi mynda fylkingu í lofti yfir Noregshafi við norsku ströndina.

Fimmtudaginn 2. júní tóku 45 flugvélar þátt í heræfingu við vesturströnd Noregs frá Møre í suðri til Nordland fyrir norðan heimskautsbaug. Auk orrustuþotna og eldsneytisvéla var AWACS-eftirlitsvél í æfingunni og flutningavélar.

Orrustuþoturnar voru frá Svíþjóð, Finnlandi og Noregis ásamt flugvélum frá NATO-löndunum Belgíu, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi.

Hershöfðinginn Rolf Folland, yfirmaður norska flughersins, sagði þetta í fyrsta sinn sem flugvélar frá NATO-umsóknarlöndunum Finnlandi og Svíþjóð tækju þátt í æfingu af þessu tagi.

Í frétt á norsku vefsíðunni BarentsObserver segir að æfingin sýni hve norrænn flugher verði öflugur nyrst í Evrópu með NATO-aðild Finna og Svía. Finnar hafi nú ákveðið að fyrstu F-35 orrustuþotur þeirra verði með aðsetur í flugherstöð í Rovaniemi við heimskautsbaug, innan við 400 km frá kafbátahöfnum Rússa á Kólaskaga. Svíar eru með flugherstöð í Luleå í Lapplandi. Þegar þjóðirnar sitji við sama borð og Norðmenn í NATO verði unnt að samhæfa hernaðarmátt þeirra og styrkja þannig varnir þeirra.

Norðmenn hafa nú þegar fengið afhentar 34 af 52 F-35 orrustuþotunum sem þeir keyptu frá Bandaríkjunum, nokkrar þeirra hafa stundað loftrýmisgæslu frá Keflavíkurflugvelli en hún er liður í svonefndu Quick Reaction Alert (QRA)-verkefni NATO sem miðar að skjótu viðbragði í lofti. Finnar keyptu í desember 2021 alls 64 F-35 þotur og fá þeir vélarnar afhentar á árunum 2026 til 2030.

 

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …