Home / Fréttir / Nýr gagnrýninn tónn repúblíkana í garð Trumps

Nýr gagnrýninn tónn repúblíkana í garð Trumps

p08bnnzg

Donald Trump Bandaríkjaforseti glímir við mestu vandræði á forsetaferli sínum um þessar mundir. Ekki er nóg að hann sæti gagnrýni fyrir hvernig hann brást við COVID-19 faraldrinum heldur loga borgir í Bandaríkjunum í óeirðum vegna þess að blökkumaðurinn George Floyd andaðist í Minneapolis mánudaginn 25. maí eftir að hafa sætt harkalegri handtöku. Lögreglumenn sem sáust yfir honum á myndbandi voru reknir en læknisrannsókn sýnir að þeir urðu honum ekki að fjörtjóni heldur eftirköst.

Á bandarísku vefsíðunni Axios segir að með því að hæðast að COVID-19-grímum, fullyrða að hættulegt sé að greiða atkvæði utankjörstaðar, segja að gagnrýnandi hans í sjónvarpi eigi aðild að morði hafi Donald Trump Bandaríkjaforseti gengið svo fram af mörgum landsþekktum repúblíkönum að þeir líti til annarrar áttar. Þá skaði árásir forsetans á Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina hann og einnig stóryrði vegna afleiðinganna af dauða Floyds.

Bent er á að snemma hafi ráðamenn innan flokks repúblíkana áttað sig á hættunni af því að ögra stuðningsmönnum Trumps þess vegna þyki svo merkilegt núna þegar vart verði við minnsta ágreining innan flokksins.

Gagnrýni Trumps á grímur til að hefta útbreiðslu COVID-19 birtist ekki aðeins í því að hann neitar að nota þær heldur einnig í hæðnisorðum hans um þá sem gera það. Hann sakaði meðal annars blaðamann í Hvíta húsinu um „pólitískan rétttrúnað“ þegar hann birtist með grímu.

Á dögunum sýndi Mitch McConnell, leiðtogi repúblíkana í öldungadeild Bandaríkjaþings, að hann hefði fordóma Trumps gegn grímum að engu og setti eina á sig á opinberum vettvangi í Kentucky með þeim orðum að það ætti enginn að skammast sín fyrir að ganga með grímu. Bent er á að jafnvel sjónvarpsvinur Trumps á Fox-sjónvarpsstöðinni, Sean Hannity, sagði: „Sé þér ekki unnt að halda hæfilegri fjarlægð, vinsamlega settu upp grímu.“

Joe Scarborough, dagskrárgerðarmaður á MSNBC-sjónvarpsstöðinni og fyrrv. fulltrúadeildarþingmaður repúblíkana, hefur gengið nærri Trump með því að gagnrýna forsetann í þætti sínum á hverjum morgni. Trump svaraði á Twitter með því að gefa til kynna að Scarborough hafi átt hlut að dauða fyrrverandi starfsmanns fulltrúadeildarinnar árið 2001.

Læknir sagði Lori Klausutis hefði vegna hjartveiki dáið þegar hún datt og rak höfuðið í borð, þetta hefði verið slys. Vegna orða Trumps á formaður þingflokks repúblíkana í fulltrúadeildinni, Lynne Cheney, sig knúna til að biðja Trump um að hafa sig hægan: „Við glímum við farsótt. Hann er æðsti forystumaður þjóðarinnar. Og þetta veldur fjölskyldu ungu konunnar sem dó sársauka,“ sagði Cheney við blaðamenn.

Trump fullyrðir að utankjörstaðaratkvæðagreiðsla eða póstkosning eins og Bandaríkjamenn kalla það sé „svindl“ og leiði til stórfelldra kosningasvika. Þessi orð hans eru úr lausu lofti gripin en hann kann að vísa til þeirra tapi hann kosningunum í nóvember 2020.

Donald Trump tilkynnti föstudaginn 29. maí að Bandaríkjastjórn segði sig alfarið frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Lamar Alaxender, formaður heilbrigðisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, þar sem repúblíkanar eru í meirihluta, lýsti sig ósammála forsetanum. Það bæri að grandskoða starfsemi WHO eftir að faraldrinum lyki.

Þegar forsetinn sagði á Twitter að mótmælendur í Minneapolis ættu að hafa í huga að skothríð hæfist um leið og ránsferðir hæfust sagði Mitch McConnell á hinn bóginn að í borgum, einstökum ríkjum og landinu öllu yrðu menn að standa saman. Tónninn var allt annar en hjá forsetanum.

Niðurstaðan á Axios er að ekki sé beint unnt að tala um byltingu innan flokks repúblíkana en sé litið þess hvernig þeir og aðrir bandamenn Trumps hafi breytt um tón sé augljóst að nú vilji menn að Trump heyri annað úr þessum röðum en áður.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …