Home / Fréttir / Nýr forseti Póllands tekur Eistland fram yfir Litháen

Nýr forseti Póllands tekur Eistland fram yfir Litháen

Andrzej Duda, forseti Póllands.
Andrzej Duda, forseti Póllands.

Andrzej Duda, nýkjörinn forseti Póllands, fer til Eistlands í fyrstu opinberu heimsókn sinni til útlanda. Litháar væntu þess að land sitt yrði hið fyrsta sem hinn nýkjörni forseti heimsækti en ágreiningur vegna stöðu pólska minnihlutans í Litháen veldur vandræðum í samskiptum ríkjanna.

Toomas Hendrik Ilves, forseti Eistlands, bauð pólska forsetanum í heimsókn. Þeir munu hittast í Tallinn sunnudaginn 23. ágúst þegar 76 verða liðin frá því að utanríkisráðherrar Stalíns og Hitlers skrifuðu undir Molotov-Ribbentrop griðasáttmálann sem tryggði Stalín ráð yfir Eystrasaltsríkjunum og gat af sér innrás Hitlers inn í Pólland.

Í tilefni af komu pólska forsetans segir Eistlandsforseti:

„Sú staðreynd að Duda velur Eistland sem fyrsta erlenda viðkomustað sinn sem forseti staðfestir enn einu sinni hin mjög nánu tengsl milli Póllands og Eistlands. Pólverjar gegna lykilhlutverki við gæslu öryggishagsmuna svæðisins og til að efla samheldni innan NATO. Pólverjar skipta einnig miklu við gæslu sameiginlegra hagsmuna innan Evrópusambandsins.“

Innan Litháens eru Pólverjar minnihlutahópur. Þeir hafa meðal annars viljað geta ritað eiginnöfn sín með pólskum bókstöfum á opinber skjöl án þess að fá heimild til þess. Þing Litháens fjallar nú um lagafrumvarp sem breytir gildandi reglum Pólverjum í hag.

Þingkosningar eru á næsta leiti í Póllandi og í Litháen telja sumir að hinn nýkjörni forseti hafi ekki viljað kynda undir umræður um hlutskipti pólska minnihlutans í aðdraganda kosninganna. Hann hafi viljað forðast að þetta langvinna deilumál stjórnvalda í Litháen og Póllandi yrði ofarlega í umræðum fyrir kosningarnar.

Í tíð Bronislaws Komorowskis, forvera Duda sem forseta, sætti ríkisstjórn Litháens harðri gagnrýni fyrir framkomu sína í garð pólska minnihlutans. Litháar sögðu þessa gagnrýni úr lausu lofti gripna.

Heimild: Baltic Times

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …