Home / Fréttir / Nýr forseti Georgíu vill nánari tengsl við NATO og ESB

Nýr forseti Georgíu vill nánari tengsl við NATO og ESB

Salome Zurabishvili flytur innsetningarræðu sína.
Salome Zurabishvili flytur innsetningarræðu sína.

Salome Zurabishvili var sett í embætti Georgíu sunnudaginn 16. desember. Hún er fyrsta konan til að gegna embættinu. Í innsetningarræðu sinni sagðist hún ætla að sameina þjóðina og dýpka tengsl hennar við NATO og ESB.

„Sem forseti Georgíu studd af strategískum samstarfsaðila okkar, Bandaríkjunum, og evrópskum vinum mun ég leggja mig fram um að vinna að inngöngu þjóðarinnar í NATO og ESB,“ sagði hún.

Innsetningarathöfnin var haldin í 18. aldar höll í bænum Telavi, um 100 km fyrir austan höfuðborgina Tbilisi.

Rúmlega 1.800 gestir voru við athöfnina, heimamenn og útlendingar. Þeirra á meðal voru Armen Sarkisian, forseti Armeníu, og Nicolas Sarkozy, fyrrv. forseti Frakklands.

Salome Zurabishvili (66 ára) er fædd í Frakklandi. Hún starfaði í frönsku utanríkisþjónustunni. Varð sendiherra Frakka í Georgíu árið 2003, þá utanríkisráðherra Georgíu 2004 til 2005. Hún tók síðan þátt í stjórnmálumí Georgíu þar til hún sigraði í síðari umferð  forsetakosninganna 28. nóvember með 59,5% atkvæða. Stjórnarflokkurinn, Draumur Georgíu, studdi hana.

Keppinautur hennar var Grigol Vashadze frá stjórnarandstöðuflokknum, Sameinuðu þjóðarhreyfingunni. Hann fékk 40,5% atkvæða. Stjórnarandstöðuflokkarnir samþykkja ekki úrslitin, telja að svik hafi verið tafli.

Stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar reyndu að efna til mótmæla í Telavi sunnudaginn 16. desember en lögregla hindraði för þeirra til bæjarins. Kom til ryskinga vegna þess.

„Draumur Georgíu hefur svipt okkur stjórnarskránni, stjórnarstofnunum og tjáningarfrelsinu,“ sagði Vashadze síðar við fréttamenn.

Alþjóðlegir kosningaeftirlitsmenn segja að seinni umferð kosninganna hafi einkennst „af baráttu“ en  Zurabishvili hafi notið „óviðeigandi forskots“ vegna misnotkunar á stjórnsýslunni sem hafi „gert skilin milli flokks og ríkis óskýr“.

 

Heimild: RFE/RL

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …