
Þessi greinh eftir HAMISH DE BRETTON-GORDON offursta birtist á vefsíðunni The Telegraph 9. júní 2023.
Sem fyrrverandi skriðdrekaforingi get ég sagt eitt með fullri vissu: Aðþrengdir nýliðar Pútins eru algjörlega óviðbúnir bylmingshögginu sem þeir fá nú að þola. Bryndrekasveitir Úkraínumanna sækja nú fram til orrustu gegn her Rússa og þær munu mala rússnesku varnarlínurnar. Af einni einfaldri ástæðu er ég viss um þetta: Úkraínumenn munu fylgja vestrænu hugmyndafræðinni um gildi þess að koma óvininum að óvörum með því að láta ólíkar einingar heraflans mynda eina heild en Rússar munu fylgja sovésku kenningunni um að draga beri átökin á langinn með fjölda hermanna. Rússarnir munu komast að því að brynhlíf vestrænna skriðdreka stenst miklu meiri áraun en kjöt og bein, mikill fjöldi þeirra mun falla og þeir munu tapa.
Forysta í höndum foringja er lykillinn að því að unnt sé að koma óvininum á óvart. Án tillits til tignarstöðu skilja allir foringjar að þeim ber að ná besta árangri og þeir fá svigrúm til að haga orrustunni á þann veg sem tryggir sigur. Úkraínumenn hafa mikla reynslu af svona hernaði þar sem þeir geta verið kvikir og lagað áætlanir sínar að stöðunni á vígvellinum eftir því sem henni vindur fram og hún breytist. Rússar berjast ekki eftir þessari aðferð. Þeir fá stíf fyrirmæli um hvernig framkvæma eigi áætlanir sem eru samdar á toppnum og má ekki breyta jafnvel þótt allt fari á versta veg. Þetta hefur hvað eftir annað komið í ljós í Úkraínu, þar hafa skriðdrekar Rússa alltof oft verið sprengdir í loft upp áður en tóm gafst til að beita byssu þeirra.
Við þetta má síðan bæta þeirri einföldu staðreynd að her Úkraínumanna hefur sýnt yfirburði við að tileinka sér hernað með samhæfingu ólíkra eininga. Í því felst að beita saman skriðdrekum, fótgönguliði, stórskotaliði og flugher til þess að ná settu marki. Hver einstök eining leggur sitt af mörkum og þegar þær sameina kraftana verður aflið mun meira en einföld samlagning segir. Áhrifin eru hrikaleg. Tæplega 4.000 rússneskir skriðdrekar hafa verið eyðilagðir vegna þess að fótgönguliðar og flugher veittu þeim ekki næga vernd. Tugir þúsunda rússneskra hermanna hafa fallið af því að þeir nutu ekki nægilegs stuðnings stórskotaliðs og skriðdreka.
Til að ná tökum á hernaði af þessu tagi þarf hæfni og þjálfun. Menn þurfa réttu tækin og áhrifamiklar aðferðir við beitingu þeirra. Úkraínumenn búa yfir þessu. Ég tel að skriðdrekafylki þeirra hafi fengið um átta vikur til að ná tökum á sameiginlegum aðgerðum ólíkra eininga, það er svipaður tími og ég hefði gefið Konunglegu skriðdrekadeildinni undir minni stjórn til að ná því að skila árangri sem eining í sameiginlegum bardagaher. Þeir ráða örugglega yfir réttu tækjunum. Skriðdrekar af gerðunum Challenger og Leopard eru miklu betri en það sem eftir er af þungum bryndrekum Rússa, þeir verða fremstir í sókninni sem nýtur skjóls af lamandi áhrifamætti háþróaðra stórskotavopna sem beita má af mikilli nákvæmni.
Sé litið á hina hliðina virðast rússnesku nýliðarnir aðeins hafa fengið fárra daga þjálfun, lítið af skotfærum og síðan verið sendir í kjöthakkavélina þar sem lífslíkur eru örugglega mældar í dögum. Þeir hefðu alveg eins getað fellt þá með byssu á æfingavellinum, það hefði verið fljótlegra, ódýrara og haft álíka mikið bardagagildi.
Þeir fá örugglega enga hjálp úr lofti. Af rússneska flughernum ætti að stafa gífurleg ógn en svo virðist sem flugmennirnir hafi kosið að fela sig í húsakynnum foringjaklúbbsins í stað þess að eiga í höggi við frábærar loftvarnir Úkraínu. Stundum er hugleysi skynsamlegasti kosturinn.
Loka- og ef til vill mikilvægasti þáttur árangursríkra vopnaviðskipta er baráttuandi liðsins. Úkraínumenn eiga nóg af honum. Rússnesku nýliðana skortir hann næstum alveg. Mín eigin reynsla eftir að hafa tekið þátt í fjölda bardaga er að maður þarf virkilega að vilja fara upp úr skotgröfinni til að berjast við óvininn. Það er vissulega hvorki auðvelt né eðlislægt að gera það.
Kænska Úkraínumanna, upplýsingar frá vestrænum leyniþjónustum auk vestræns tækjabúnaðar og dálítillar heppni ætti að mínu áliti að gera það sem eftir er af rússneska hernum að litlu meira en hraðahindrun á leiðinni til að frelsa Krím, þrýsta að rússnesku landamærunum og til að fleygja stríðsglæpamönnum Pútins út úr Úkraínu í eitt skipti fyrir öll.
Pútin líkist mjög Adolf Hitler í lok stríðs hans þar sem hann virðist innilokaður í byrgi sínu, mataður af lygum, önnum kafinn við að taka rangar ákvarðanir á meðan hákarlarnir sveima í hringi. Í sögunni kann að verða litið til þess sem nú gerist í Úkraínu sem stórviðburð í skriðdrekahernaði við hlið Cambrai, Kursk og Arras gagnsóknanna. Hvað sem öðru líður verður þessa minnst sem endaloka ólöglegrar innrásar Moskvuvaldsins – og ef til vill sem upphafs endaloka Pútíns.
Hamish de Bretton-Gordon offursti er fyrrverandi yfirforingi 1. Konunglegu skriðdrekadeildarinnar,