Home / Fréttir / Nýjum kjarnorkukafbáti Frakka hleypt af stokkunum

Nýjum kjarnorkukafbáti Frakka hleypt af stokkunum

Emmanuel Macron við athöfnina í Cherbourg.
Emmanuel Macron við athöfnina í Cherbourg.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti var föstudaginn 12. júlí í hafnarborginni Cherbourg í norðvestur hluta Frakklands og hleypti af stokkunum kjarnorkuknúna kafbátnum Suffren. Kafbáturinn er fyrstur í röð sex kafbáta af Barracuda-gerð sem verða þungamiðja í vörnum franska flotans.

Franska skipasmíðastöðin Naval Group smíðar kafbátana sex. Þeir eru hluti af 9 milljarða evru áætlun franska flotans um torséð skip.

Naval Group samdi nýlega við ríkisstjórn Ástralíu um að smíða 12 kafbáta af þessari gerð fyrir 31 milljarð evra.

Kafbáturinn er 5.000 lestir og hefjast tilraunasiglingar á Suffren líklega árið 2020. Næstu kafbátar af Barracuda-gerð bætast við franska flotann á næsta áratug og er talið að þeir verði í þjónustu hans til að minnsta kosti ársins 2060.

Barracuda-bátarnir koma í stað kafbáta af Rubis-gerð og frá þeim verður unnt að skjóta stýriflaugum á skotmörk í allt að 1.000 km fjarlægð.

Dominique Trinquand herfræðingur nefnir þrjá þætti sem sýni gildi nýju kafbátanna fyrir franska flotann. Þeim megi beita til varnar flugmóðurskipum, þeir nýtist til njósna og upplýsingaöflunar og auki árásarmátt á hafi úti.

Þeir eru hljóðlátari en eldri franskir kafbátar og því erfiðara að finna þá. Þá er sagt að þeir séu „tíu sinnum“ næmari gagnvart ferðum annarra skipa.

 

Heimild Tfi

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …