Home / Fréttir / Nýju risavopni Rússa grandað í Úkraínu

Nýju risavopni Rússa grandað í Úkraínu

Myndskeið sýjnir árásina á nýja rússneska vopnið.

Í mörg ár höfðu Rússar gert tilraunir með nýtt vopn. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að vopninu var beitt á vígvellinum í Úkraínu í fyrsta sinn var því grandað.

Á árunum 2921 og 2022 gerðu Rússar tilraunir með nýtt ratsjárkerfi (1K 148 Jastreb-AV) sem ætlað var að gera hermönnum þeirra kleift að staðsetja hvaðan skotið væri fallbyssukúlum á þá og svara síðan í sömu mynt á upphafsstaðinn.

Talið er að vopnið hafi kostað 34,5 milljarða krónur en því var ætlað að skapa forskot í átökum sem einkennast af stöðugum stórskotaárásum.

Þriðjudaginn 2. janúar tilkynnti rússneska varnarmálaráðuneytið, að sögn Business Insider, að ratsjárkerfið hefði loks verið tekið í notkun hjá rússneska hernum á vígvellinum í Úkraínu.

Nýja vopnið gagnaðist hernum ekki lengi.

Úkraínska varnarmálaráðuneytið sagði frá því á samfélagsmiðli að kerfið hefði aðeins verið í nokkrar klukkustundir í notkun við Úkraínu áður en úkraínskir hermenn eyðilögðu það.

Varnarmálaráðuneytið segir að kerfinu hafi verið grandað með „fullkomnu skoti“ og birtir myndskeið því til sönnunar.

Sérsveit hers Úkraínu sendi auk þess frá sér tilkynningu á Telegram um að liðsmenn sveitarinnar hefðu á eftirlitsferð getað staðsett kerfið nákvæmlega. Ekki hefur verið upplýst um staðinn opinberlega.

Þá segir að eftir staðsetninguna hafi úkraínsku hermennirnir að líkindum notað HIMARS-flugskeytakerfið til að eyðileggja rússneska ratsjárkerfið.

Business Insider segist ekki hafa getað sannreynt fullyrðingar Úkraínuhers um eyðileggingu ratsjárkerfisins en myndskeiðið frá aðgerðinni beri með sér að verulegt tjón hafi verið unnið á kerfinu.

Úkraínski hershöfðinginn Oleksandr Tarnavskíj sagði fimmtudaginn 4. janúar að á einum sólarhring hefðu Rússar sent tæplega 900 sprengjukúlur á skotmörk í  suðaustur hluta Úkraínu.

Fyrir utan þessa stórskotahríð gerðu Rússar 25 loftárásir á sama stað.

Oleksandr Tarnavskíj er í forystu fyrir Tavira-hópnum sem er fremst á vígvellinum meðal annars í orrustunni um Avdijivka. Rússar hafa síðan í október hert sókn sína við þennan bæ sem er við hernumda Donetsk-héraðið,

Bandaríska forsetaembættið sagði 4. janúar að Norður-Kóreumenn hefðu látið Rússum í té banvæn langdræg flugskeyti. John Kirby, upplýsingafulltrúi þjóðaröryggisráðsins, sagði að í þessu fælist „þýðingarmikil“ og „áhættusöm stigmögnun“.

Bandaríkjastjórn ætlar að taka málið upp í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …