Home / Fréttir / Nýjar varnaráætlanir NATO – herstjórn Norðurlanda verður í Norfolk

Nýjar varnaráætlanir NATO – herstjórn Norðurlanda verður í Norfolk

Hollenski flotaforinginn Rob Bauer, formaður hermálanefndar NATO.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að á ríkisoddvitafundi 31 aðildarlands bandalagsins í Vilníus, höfuðborg Litháens, þriðjudaginn 11. júlí verði kynntar nýjar varnaráætlanir bandalagsþjóðanna þar sem gert sé ráð fyrir að allt að 300.000 hermenn séu á háu viðbragðsstigi vegna hættu frá Rússlandi og frá hryðjuverkamönnum.

Um er að ræða þrjár svæðisbundnar varnaráætlanir:

  1. Fyrir Norðurlöndin, Atlantshaf og evrópskan hluta norðurslóða (e. Arctic). Herstjórn þessa svæðis verður í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum.
  2. Fyrir miðhluta Evrópu, það er Eystrasaltið og Mið-Evrópu, frá Eystrasalti að Ölpum. Herstjórnin verður í Brunssum í Hollandi.
  3. Fyrir suðaustur hluta Miðjarðarhafs og Svartahaf. Herstjórnin verður í Napólí á Ítalíu.

Hollenski flotaforinginn Rob Bauer, formaður hermálanefndar NATO, segir að vinna við að útfæra þessar áætlanir hefjist eftir að ríkisoddvitarnir hafi samþykkt þær á fundi sínum. Þá hefjist vinna við að fjölga í viðbragðsliði herja, æfa framkvæmd áætlananna og kaupa nauðsynleg tæki og búnað. Allt taki þetta sinn tíma

„Hér er ekki um það að ræða að ýta á einhvern hnapp,“ segir Bauer. „Það munu líða nokkur ár þar til allt kemst í fastar skorður.“

Formaður NATO-hermálanefndarinnar segir að um þessar mundir ógni Rússar  NATO ekki sérstaklega. Líta verði til þess að um 90% landhers Rússa sé bundinn við stríðið í Úkraínu. Þetta breytist líklega þegar fram líði stundir.

„Við erum sannfærðir um að Rússarnir nái sér á strik og þess vegna miðast áætlanirnar ekki við stöðuna núna heldur við ástand rússneska hersins fyrir innrásina í Úkraínu,“ segir hollenski flotaforinginn og einnig:

„Þeir læra einnig af stríðinu og þess vegna lítum við áfram á þá sem alvarlega ógn á hafinu en þó sérstaklega í lofti. Þá má ekki horfa fram hjá geimnum, þar er færni þeirra mjög, mjög mikil.“

Áður en til átakanna kom í Úkraínu var mikið rætt um hernaðarútgjöld á vettvangi NATO og hvatt til þess að ríki gerðu ráðstafanir til að þau næðu 2% af vergri landsframleiðslu eins og um var samið á ríkisoddvitafundi NATO í Wales árið 2014.

Síðan hafa útgjöld einstakra landa aukist hægt og sígandi. Árið 2014 náðu aðeins þrjú ríki 2% markinu: Bandaríkin, Bretland og Grikkland. Nýbirt yfirlit frá NATO sýnir að 11 ríki ná markinu í ár: Pólland, Bandaríkin, Grikkland, Eistland, Litháen, Finnland, Rúmenía, Ungverjaland, Lettland, Bretland og Slóvakía.

Árleg útgjöld Bandaríkjanna til varnarmála nema nú 743 milljörðum dollara, sem svarar til tveggja þriðju af heildarútgjöldum allra NATO-ríkjanna til málaflokksins. Frá því í fyrra hafa önnur ríki aukið útgjöld sín um 8,3% að raunvirði sem er mesta aukning í marga áratugi segir Jens Stoltenberg.

Danska ríkisútvarpið, DR, segir að í gögnum NATO komi fram að varnarútgjöld Dana nemi 1,65% af vergri landsframleiðslu árið 2023. Jafnframt minnir DR á að nýlega hafi náðst víðtækt samkomulag á danska þinginu um að auka þessi útgjöld um 143 milljarða danskra króna á næstu tíu árum.

Samkvæmt því er ætlunin að í síðasta lagi árið 2030 nái Danir 2% marki NATO.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …