Home / Fréttir / Nýjar ógnir í öryggismálum – Varðbergsræða dómsmálaráðherra

Nýjar ógnir í öryggismálum – Varðbergsræða dómsmálaráðherra

 

aslaug-arna

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins fimmtudaginn 21. nóvember. Hér birtist ræðan í heild.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta boð og jafnframt þakka stjórn Varðbergs fyrir að standa  fyrir þessum fundi – og um leið að halda út því öfluga starfi og mikilvægu umræðu sem Varðberg hefur staðið fyrir og haft forystu um undanfarin ár.

Ég mun hér fjalla um áherslur í öryggis- og varnarmálum og nýjar öryggisógnir. Í upphafi tel ég rétt að fjalla í stuttu máli um tengsl öryggismála og varnarmála en ákveðnir þættir þeirra eru samofnir og verða ekki aðskildir. Við getum sagt að varnarmálin séu staðbundin og lúti að því að verja yfirráðasvæði Íslands utanaðkomandi ógnum og þá einkum hernaðarlegum. Öryggismálin eru víðfeðmari og þar getur verið um að ræða hnattrænar áskoranir eða ógnir sem krefjast alþjóðlegrar samvinnu – ekki aðeins í samstarfi við ríki í okkar heimshluta heldur í samstarfi við fjarlæg ríki og alþjóðlegar stofnanir.

Á dögum kalda stríðsins var nokkuð skýr aðgreining á milli ytra og innra öryggis þjóðarinnar. Þetta hefur breyst. Með gjörbreyttum samskiptum okkar við aðrar þjóðir hefur reynst nauðsynlegt að útvíkka öryggishugtakið þannig að það nái yfir alþjóðlega, samfélagslega og einstaklingsbundna áhættuþætti. Ógnirnar geta sprottið úr nálægum og fjarlægum heimshlutum og falið í sér skipulagða glæpstarfsemi, hryðjuverk, mansal, peningaþvætti, útbreiðslu kjarna- og efnavopna, röskun eða eyðileggingu innviða t.d. með árásum á tölvu-, fjarskipta-, orku- og fjármálakerfi.

Í þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland frá árinu 2016 kemur fram að henni sé ætlað að tryggja sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Stefnan hvílir á skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Undirstaða stefnunnar er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.

Hér kemur glögglega fram að varnir og öryggi eru samofin hugtök en ein af áherslum þjóðaröryggisstefnunnar er áframhaldandi aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum frá 1951 við Bandaríkin. Þá er ein af áherslum stefnunnar að í landinu þurfi að vera varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum.

Aðildin að NATO

Fyrr á þessu ári voru liðin 70 ár frá stofnun Atlantshafsbandalagsins. Bjarni Benediktsson, sem þá var utanríkisráðherra, undirritaði sáttmálann fyrir Íslands hönd og í ræðu sem hann flutti við það tækifæri gerði hann að umtalsefni smæð þjóðarinnar og þá staðreynd að Íslendingar væru vopnlaus smáþjóð. Hernaðarlega mikilvæg lega landsins gæti á hinn bóginn haft úrslitaþýðingu um öryggi bandalagsríkjanna. Íslendingar vildu tilheyra því frjálsa samfélagi þjóða sem yrði til með stofnun bandalagsins.

Þarna var stigið heilladrjúgt skref og mælt af mikilli skynsemi. Allir þeir þættir sem Bjarni nefndi liggja enn til grundvallar stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum: Við höfum ekki afl til að verja okkur sjálf í hugsanlegum ófriði eða styrjöld; landið er hernaðarlega mikilvægt vegna legu sinnar og við viljum tilheyra frjálsu samfélagi þjóða. Þar hefur aðildin að EFTA og Evrópska efnahagssvæðinu (EES) einna mesta þýðingu nú um stundir en einnig má nefna norrænt samstarf sem dæmi um vel heppnað og náið samstarf frjálsra og friðelskandi þjóða.

En tímarnir breytast og í dag stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunun ólíkum þeim sem ríki Atlantshafsbandalagsins stóðu frammi fyrir árið 1949.

Á afmælisfundi Atlantshafsbandalagsins í Washington sl. vor voru samskiptin við Rússland ofarlega á baugi. Þar var rætt um ófriðinn í Úkraínu og var stjórnvöldum þar heitið stuðningi. Einnig var lýst yfir stuðningi við stjórnvöld í Georgíu vegna erfiðleika í samskiptum við Rússa. Þá komu brot Rússa á INF samningnum um meðaldrægar kjarnaflaugar til umræðu. Fleiri mál voru rædd og má þar einkum nefna aðgerðir gegn hryðjuverkum og baráttuna gegn ISIS-hryðjuverkasamtökunum.

Allt eru þetta dæmi um ytri ógnir sem að Atlantshafsbandalaginu steðja nú á tímum. Þær staðfesta að þörfin fyrir öflugt varnarsamstarf aðildarríkjanna er enn til staðar og samstaða þeirra afar brýn gagnvart öllum þessum þáttum.

Allt teygir þetta anga sína víðar.

Undanfarin misseri hafa Evrópuþjóðir verið uppteknar af innbyrðis deilum m.a. vegna efnahagsvanda fátækari ríkja sambandsins. Stjórnmálaöfl sem efast um Evrópusamstarfið eru að eflast, ekki síst vegna flóttamannavandans í kjölfar stríðsátaka og þá öðru fremur í Afganistan og í Sýrlandi. Bandaríkjamenn gagnrýna Evrópuríkin einkum Þýskaland fyrir að leggja of lítið af mörkum til eigin varnarmála. Mikið ósætti er á milli Evrópusambandsins og stjórnvalda í Bretlandi vegna fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr sambandinu.

Bretland mun að öllum líkindum efla hernaðarlegt og viðskiptalegt samstarf sitt við Bandaríkin í kjölfar útgöngunnar. Ísland verður á áhrifasvæði þessara tveggja öflugu bandamanna í NATO líkt og áður. Vaxandi þungi gæti færst í það samstarf vegna nýrrar stöðu öryggismála á Norðurslóðum þar sem bæði Rússag Kínverjar sækja fram og seilast til aukinna áhriMikilvægt er að draga réttar ályktanir í ljósi framangreindrar þróunar. Sjálf verðum við að taka af skarið hvað varðar framtíðina. Reynslan hefur kennt okkur að við getum ekki beðið eftir ákvörðunum annarra. Við verðum að hafa sjálfstæða stefnu í þessum málaflokki byggða á eigin hagsmunum og raunsæju mati allra aðstæðna. Þar er áframhaldandi samstarf við Bandaríkin, Bretland, Norðmenn og Dani vegna Færeyja og Grænlands skynsamlegasti kosturinn.

Landhelgisgæslan

Auk þeirra málaflokka sem ég gat um í upphafi erindisins má nefna hvers kyns glæpastarfsemi á netinu, ólöglega fólksflutninga, spillingu og mútur. Allt eru þetta þættir sem ógna öryggi almennings með einum eða öðrum hætti. Að auki má nefna leit og björgun í sambandi við öryggismál okkar því aukin umferð í námunda við landið, í lofti og á legi, eykur hættu á bæði slysum og mengunaróhöppum. Verið er að endurmeta getu Landhelgisgæslunnar til að sinna auknum verkefnum bæði hvað varðar þyrlur og skipaflota hennar en á síðustu árum hefur einnig verið unnið markvisst að því að efla tengsl við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum í þessu tilliti, þá sérstaklega Dani.

Það má gera fastlega ráð fyrir því að á næstu árum muni reyna enn meira á bæði viðbragðsgetu okkar sem og þekkingu og getu til vöktunar og björgunar á hafinu í kringum okkur. Ég vil leggja mitt af mörkum til að tryggja að Gæslan hafi þá getu, þau tæki og það fjármagn sem til þarf til að starfa á svo stóru hafsvæði sem heyrir undir ábyrgð Íslands.

Það er ekkert launungarmál að allt kostar þetta gífurlegt fjármagn. Eins og staðan er núna eigum við í raun bara eitt fullbúið varðskip sem hefur alvöru getu til þess að sinna öllum þeim verkefnum sem Gæslan þarf að sinna á hafi úti. Önnur skip, Týr og Ægir, eru úr sér gengin. Þau nýtast vissulega til gæslu og eftirlits, en hafa ekki þá viðbragsgetu sem nauðsynleg er til björgunaraðgerða.

Við eigum fullkomna flugvél sem nýtist til bæði eftirlits- og björgunarstarfa. Frá því að vélin kom til landsins hefur hún verið nýtt að miklu leyti í leiguverkefni erlendis. Það var eðlileg ráðstöfun á fyrstu árunum í kjölfar efnahagshrunsins 2008 en til lengri tíma viljum við nýta vélina í meira mæla í verkefni hér heima við. Þyrlurnar eru dýrar og það er dýrt að reka þær. Við erum nú að stefna að því að kaupa nýjar þyrlur og það mun skýrast á næstu misserum hvernig þeim málum er háttað. En það hefur verið fjármagnað sem og auka áhöfn á þyrlurnar.

Landhelgisgæslan hefur í gegnum árin haft burði til að sinna þeim verkefnum sem henni eru falin og ítrekað hafa starfsmenn hennar unnið hvert björgunarafrekið af öðru. Það er ekki tilgangur minn hér að draga upp dökka mynd af öryggismálum og þetta ávarp hér er ekki beint erindi til fjármálaráðherra um að taka upp veskið 🙂

Ég nefna þetta hér því við þurfum að móta okkur skýra stefnu í björgunarmálum til lengri tíma og forgangsraða þannig að við séum í stakk búin til þess að sinna þessum málum með viðunandi hætti og gott betur. Til þess þarf þverpólitískan stuðning og stefnumótun til lengri tíma.

Peningaþvætti

Það er ekki hægt að halda ávarp, þar sem rætt er um öryggis- og varnarmál í víðu samhengi, án þess að minnast á þá ákvörðun FATF (. Financial Action Task Force) að setja Ísland á það sem kallaður er grár listi yfir ríki sem sæta sérstöku eftirliti eða teljast áhættusöm með tilliti til peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka. Það er ekki eitthvað sem við tökum létt.

Með inngöngu í FATF skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og starfsreglur að tilmælum FATF. Auk aðildar að aðgerðahópnum er Ísland aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem einnig hefur beitt sér gegn peningaþvætti og hefur á stefnuskrá sinni að vernda heilbrigði og stöðugleika fjármálakerfa, stemma stigu við fjármögnun hryðjuverka og gera brotamönnum óhægt um vik við að hagnast á glæpum sínum. Hryðjuverkasamtök stunda peningaþvætti rétt eins og aðrir glæpamenn og glæpasamtök.

Íslenskt viðskiptalíf og fjármálakerfi verður að vera meðvitað um hættuna af peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Allir hlutaðeigandi aðilar verða að gera sér grein fyrir hvernig bregðast eigi við þessari hættu. Andvaraleysi og slóðaháttur getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahafslífið í heild og skaðað orðspor þjóðarinnar með vondum afleiðingum. Því er mikilvægt að tilkynningarskyldir aðilar virði lög og tilmæli í hvívetna á þessu sviði.

Á árinu 2017 hófst ný úttekt FATF, hin fjórða í röðinni frá því Ísland gerðist aðili, og hún miðaði að því að kanna mögulega veikleika stjórnkerfisins við að sporna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, ekki síst á fjármálamarkaði. Úttektin tók 14 mánuði og lokaskýrsla var gerð í apríl 2018.

Helstu niðurstöður voru slæmar. Átti þetta bæði við um regluverkið í kringum málaflokkinn og skilvirkni. Í kjölfarið hófst því sérstök eftirfylgni af hálfu endurskoðunarnefndar FATF og var gefinn eins árs frestur til að gera nauðsynlegar úrbætur til að komast hjá því að lenda á „gráa listanum“. Af því 51 atriði sem þótti ábótavant árið 2018 stóðu sex eftir í lok september sl. að mati sérfræðingahóps FATF og aðeins þrjú þegar ákvörðun er tekin um grálistun.

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að Ísland verði tekið af listanum við fyrsta tækifæri vonandi á næsta ári. Til skemmri tíma eru áhrifin af veru landsins á þessum lista hverfandi fyrir efnahagslífið og fjármálastöðugleika. Áhrifa hefur hvorki orðið vart við greiðslumiðlun né fjármagnsútflæði.

Lánshæfismatsfyrirtækin hafa gefið út yfirlýsingar um lánshæfismat ríkissjóðs án þess að niðurstaða FATF hafi haft þar neikvæð áhrif. Á hinn bóginn er hætt við að neikvæð efnahagsleg áhrif magnist ef Ísland losnar ekki af listanum á næsta ári, bæði vegna orðsporsins, sem haft getur áhrif á endurfjármögnun erlendra lána bankakerfisins og vegna þess að íslenskum fyrirtækjum, bönkum og lífeyrissjóðum gæti reynst erfitt að stofna til nýrra erlendra viðskiptasambanda.

Við munum á næstu vikum kynna frekar þær aðgerðir sem við höfum ráðist í vegna þessa.

Við skulum ekki gleyma því að Ísland er meðal þeirra landa þar sem spilling er talin vera hvað minnst í heiminum og því kemur fréttaflutningur á borð við þann sem við fengum í síðustu viku um starfsemi íslensk útgerðarfélags erlendis eins og reiðarslag inn í umræðuna. Ísland er aðili að Sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu og hefur fullgilt samning um baráttu gegn mútum í alþjóðlegum samskiptum sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur umsjón með. Ísland tekur einnig þátt í GRECO, ríkjahópi gegn spillingu innan Evrópuráðsins.

Íslensk stjórnvöld munu því gera allt sem í þeirra valdi stendur til að varðveita gott orðspor þjóðarinnar og taka á spillingu hvar sem hún birtist. Brugðist hefur verið við ábendingum um umbætur á lögum og reglum á þessu sviði og færa regluverkið til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar. En það er ekki nóg því tryggja verður að lögunum sé framfylgt með traustum og skilvirkum hætti.

Borgaralegt öryggi

Hér hef ég nokkuð fjallað um öryggis- og varnarmál, veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og öryggismál í Norður-Atlantshafi. Við höfum þó ekki síðri skyldum að gegna við að tryggja hér borgarlegt öryggi. Það er einnig víðfermt svið, almenn löggæsla, eftir tilvikum vopnuð lögregla, landamæragæsla, almannavarnir og fleira eru allt þættir sem við erum ábyrg fyrir og eru til þess fallnir að tryggja öryggi hins almenna borgara. Þessir þættir teygja sig einnig til annarra ríkja, við eigum í miklu samstarfi við alþjóðlegar löggæslustofnanir og það samstarf má efla enn frekar til lengri tíma.

Eins og áður er getið eru öryggismálin bæði víðfeðmt og djúprist viðfangsefni. Ég gæti fjallað hér um mansal, ólöglega fólksflutninga og fleiri mál – af nógu er að taka. Ég gæti einnig fjallað hér um landamæravörslu sem er gríðarlega stór málaflokkur á sviði öryggismála en ég læt duga að fjalla að endingu um öryggismál á netinu.

Segja má að netið sé undirstaða þjóðfélaga nútímans. Þar fara fram hvers konar samskipti, viðskipti og netið er einnig forsenda margháttaðra tækniframfara. En netið hefur einnig sínar dökku hliðar. Með tilkomu og útbreiðslu netsins hafa opnast möguleikar fyrir hverskonar glæpastarfsemi. Nefna má fjársvik, kynferðisofbeldi gegn börnum, einelti og sölu ólöglegs varnings t.d. fíkniefna. Einnig má nefna hvers kyns njósnastarfsemi sem dæmi um brotastarfsemi á netinu.

Verkefni ríkisvaldsins er öðru fremur að búa netinu traust lagaumhverfi og halda uppi viðeigandi löggæslu. Netið er alþjóðlegt í eðli sínu og spannar lögsögu margra ríkja og því er mikilvægt að íslensk löggjöf sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og löggjöf nágrannaríkja. Þá þarf lögreglan að hafa þekkingu og færni til að rannsaka og upplýsa brot á þessu sviði og starfa í samvinnu við löggæsluyfirvöld í öðrum löndum.

Netvarnir

Ísland hefur ekki farið varhluta af glæpastarfsemi á netinu. Fyrir nokkrum árum kom upp mál þegar svonefndur Silkroad vefur fannst á íslenskum vefþjóni, eftir umfangsmikla alþjóðlega rannsókn með þátttöku íslensku lögreglunnar. Vefurinn var markaðstorg fíkniefna og annars ólöglegs varnings. Ísland fékk hlutdeild í fjármunum sem gerðir voru upptækir vegna Silkroad vefsins og verða þeir fjármunir nýttir til að efla aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Þá má nefna vef sem fannst á íslensku léni sem var til stuðnings ISIS hryðjuverkasamtökunum. Sá vefur var afskráður þegar í ljós kom hvers konar starfsemi fór þar fram. Þessi dæmi sýna að Ísland verður að halda vöku sinni og byggja upp eftirlit og varnir gegn glæpastarfsemi á netinu.

Sáttmáli Evrópuráðsins til að sporna gegn brotastarfsemi á netinu (e. Convention on Cybercrime) er mikilvægasti alþjóðasamningurinn á sviði netöryggis og grunnur að samvinnu ríkja til að rannsaka og upplýsa netglæpi. Ísland hefur fullgilt þennan samning og íslensk lög hafa verið endurskoðuð í kjölfarið. En nauðsynlegt er að halda áfram endurskoðun lagaákvæða eftir því sem nettækni þróast og hefur áhrif á túlkun samningsins og tæknilegar skilgreiningar hans. Net- og upplýsingaöryggi er hluti af öryggissamstarfi Íslands við önnur ríki, t.d. innan Atlantshafsbandalagsins.

Í stefnu um net- og upplýsingaöryggi sem var kynnt í apríl 2015 eru sett fram fjögur meginmarkmið í stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Þessi atriði eru:

(1) Betri varnir sem felur í sér útbreiðslu þekkingar, færni og tækjum til að verjast netógnum.

(2) Aukið áfallaþol sem felur í sér getu til greiningar, viðbúnaðar og viðbragða. Í þessu felst einnig að efla getu til að greina ógnir, auka samvinnu og gera öryggi að órjúfanlegum þætti í þróun og viðhaldi net- og upplýsingakerfa.

(3) Bætt löggjöf sem felur í sér stöðuga þróun og uppfærslu laga og reglna til samræmis við alþjóðlegar kröfur og samvinnu á sviði netöryggis og persónuverndar.

(4) Traust löggæsla sem felur í sér aukna menntun lögreglu sem verður að búa yfir faglegri þekkingu og færni til að leysa úr málum er varða net- og upplýsingaöryggi.

Frelsið mikilvægt

 

Ég hef stiklað hér á stóru varðandi áherslur í öryggis- og varnarmálum. Hvert og eitt þeirra atriða sem ég hef sérstaklega vikið að væri eitt og sér efni í langan fyrirlestur.

Ég vil þó að lokum nefna að það er hægt að skilgreina öryggi með margvíslegum hætti og við eigum að vera ófeimin við að endurskoða reglulega hvert hlutverk ríkisins í því samhengi. Við þurfum líka að huga að persónulegu flelsi einstaklingsins og taka tillit til þess þegar við ræðum um og eflum öryggi hins almenna borgara. Frelsið er mikilvægt og það má aldrei láta af hendi. Ég er meðvituð um það að oft er þunn lína á milli þess að gæta öryggi almennings en virða um leið friðhelgi einkalífsins. Það er ein af þeim árskorunum sem nútíma löggæsla stendur frammi fyrir og það verkefni ber að taka alvarlega.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …