Home / Fréttir / Nýja-Sjáland: Blóðbað meðal múslima í Christchurch

Nýja-Sjáland: Blóðbað meðal múslima í Christchurch

47936145_401

Sorg og ótti ríkti meðal múslima á Nýja-Sjálandi föstudaginn 15. mars eftir að minnsta kosti einn öfgamaður hafði skotið á tvær moskur í borginni Christchurch.

Fréttir af árásinni vöktu reiði og sorg um heim allan.

Að minnsta kosti 49 féllu í árásunum og tugir annarra særðust. Fólkið var við bænagjörð í moskunum.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði þetta einn „myrkasta daginn“ í sögu Nýja-Sjálands. Hún hét því að breyta vopnalögum landsins eftir árásirnar.

Í upphafi 17 mínútna skeiðs sem tekið var föstudaginn 15. mars á myndavél á höfði manns í Christchurch á Nýja-Sjálandi segist maðurinn sem ók að Al Noor moskunni heita Brenton Tarrant, í moskunni var að minnsta kosti 41 maður skotinn til bana. Í bakgrunni hljómar fjörleg harmonika sem flytur serbneskt þjóðernislag, söngur blandast saman við rödd vélmennis sem ótruflað segir Tarrant til vegar eftir GPS-punktum.

Sönglagið heyrðist í kringum 1995 þegar stríð þjóðernishreinsana sigldi í kjölfar upplausnar Júgóslavíu á tíunda áratugnum, í átökunum féllu um 130.000 manns.

Upphaflega var lagið kallað Karazdic, leiddu Serbana þína, og er þar vísað til Radovans Karazdics, stríðshetju Bosníu-Serba, sem kallaður var slátrarinn frá Bosníu og hlaut dóm alþjóðadómstóls árið 2016 fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

„Úlfarnir koma, gætið ykkar, Ustashi og Tyrkir,“ segir í textanum sem vísar til stríðsmanna þjóðernissinna frá Króatíu og múslima frá Bosníu. „Karazdic, leiddu Serbana þína, leiddu Serbana þína. Allir verða að sjá að þeir óttast engan.“

Þótt myndskeiðið með laginu hafi greinilega verið tekið upp árið 1995 var það ekki fyrr en árið 2006 sem það var sett á netið og síðan varð það vinsælt meðal róttækra hvítra þjóðernissinna. Textinn hefur margsinnis verið umskrifaður á mörgum tungumálum en ávallt haft að geyma andróður gegn múslimum. Hvítir ofrríkismenn í Evrópu og um heim allan hafa tileinkað sér hann.

Yfirvöld á Nýja-Sjálandi segja að byssumaðurinn sem þau handtóku sé 28 ára Ástrali. Þá segir jafnframt að hann sé maðurinn á myndskeiðinu sem streymt var föstudaginn 15. mars og sýndi árásina á moskuna í Christchurch, maðurinn sem kallar sig Brenton Tarrant.

Andlitsmynd klippt út úr myndskeiðinu fór um samfélagsmiðla. Byssumaðurinn tók hana greinilega sjálfur og setti hana á netið á meðan árásin var gerð.

Tarrant birti 74 bls. yfirlýsingu á netinu þar sem hann segist ekki vera félagí neinum samtökum en hann hafi „hrifist innilega“ af Anders Breivik, Norðmanninum sem myrti 77 manns í hryðjuverkinu í Osló og skammt frá borginni árið 2011.

Fyrir árásina birti Breivik 1.500 bls. samantekt þar sem hann vísaði meðal annars til átakanna á Balkan-skaga. The Economist segir að Breivik nefni Kosovo 143 sinnum, Serbíu 341 sinni, Bosníu 342 sinnum og Albaníu 208 sinnum.

Breivik sagði að sprengjuárásir undir merkjum NATO á Serbíu í Kosovo-stríðinu árið 1999 hafi verið ein helsta ástæðan fyrir árás hans sjálfs, það hefði verið „gjörsamlega óviðunandi“ að Bandaríkjamenn og evrópsk stjórnvöld hefðu „gert sprengjuárásir á serbneska bræður okkar“.

Tarrant lýsir sjálfum sér sem „venjulegum hvítum 28 ára gömlum manni“, Ástrala af „skoskum, írskum og enskum uppruna“. Hann lýsir árásinni sem aðför gegn innflytjendum, gegn því að hrekja þjóðernishópa á brott og gegn því að uppræta menningu.

Tarrant er stefnt fyrir dómara í Christchurch laugardaginn 16. mars.

 

RFE/RL

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …