
Þing Nýja-Sjálands samþykkti miðvikudaginn 15. ágúst sem takmarkar rétt útlendinga sem ekki eru búsettir í landinu til að kaupa íbúðarhúsnæði þar. Í sumum tilvikum er um bann að ræða. Með þessu vilja þingmenn halda húsnæðisverði í skefjum. Kínverjar og Ástralir eru stærstu kaupendurnir en Ástralir eru undanþegnir banninu.
Jacinda Ardern forsætisráðherra lofaði fyrir kosningar að berjast gegn hækkun húsnæðisverðs og fyrir fækkun húsnæðislausra.
David Parker, aðstoðar-fjármálaráðherra, sagði eftir að frumvarpið varð að lögum að með því hefði verið stigið umtalsvert skref enda sýndi ríkisstjórnin í verki að hún vildi láta drauma fólks um eigið húsnæði rætast.
Húsnæðisverð hefur næstum tvöfaldast í Auckland, stærstu borg Nýja-Sjálands á liðnum áratug og hækkað um meira en 60% um landið allt.
Undanfarin ár hefur straumur fólks til Nýja-Sjálands aukist, alls voru aðkomumenn sem vildu festa rætur 71.000 árið 2017, 20% frá Ástralíu, 12% frá Bretlandi og 10% frá Kína.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvatti stjórn Nýja-Sjálands í júlí til að endurskoða áform sín um bannið. Með því kynni hún að skrúfa fyrir beina erlenda fjárfestingu sem rynni til þess að reisa ný íbúðarhús í landinu.
Viðræður hafa farið fram milli stjórnvalda í Singapúr og Nýja-Sjálandi um hvort fjárfestar frá Singapúr ættu að vera undanþegnir banninu um húsnæðiseign útlendinga.
Heimild: DW