Home / Fréttir / Nýja Rússland er alþjóðlegt úrhrak

Nýja Rússland er alþjóðlegt úrhrak

Leiðari Jyllands-Posten í dag 27. júlí fer hér á eftir í lauslegri þýðingu:

Sjötti mánuður stríðsins í Úkraínu er að hefjast. Að nýju eru alvöru stríðsátök í Evrópu og ekki aðeins vegna þess að þau færast austar megum við í okkar hluta álfunnar venjast þeim. Úkraínumenn venjast þeim ekki. Þeir gjalda þeirra með eigin lífi og sinna nánustu, á barbarískan hátt er ráðist á bæi þeirra með gamaldags fallbyssum og hátæknilegum skotflaugum og algjör óvissa ríkir um framtíð þeirra.

Moskvumenn hafa nýlega boðað ný markmið með stríðinu. Til þessa hefur verið gefið til kynna að markmiðið sé að skilja Donbas-héraðið í austurhluta Úkraínu frá öðrum hlutum landsins eins og Krím á sínum tíma en nú segir Sergei Lavrov utanríkisráðherra að markmiðið sé einnig að útrýma stjórn Volodymyrs Zelenskíjs forseta í Kyív. Auk þess kunni að vera tímanært að færa stríðið vestar í landið til að tryggja vernd gegn langdrægari vopnum frá NATO-löndunum.

Mismundandi málsvarar Kremlverjar búa bæði Vestrið og rússneskan almenning reglulega undir að stríðið geti dregist mjög á langinn. Sjálfur hefur Pútin forseti sagt að aðgerðirnar í Úkraínu hafi varla hafist enn þá. Það er munur á stöðu hans og forystumanna í vestri: Hann sem einvaldur getur lagt þrengingar á þegna sína sem aldrei yrðu samþykktar í vestrænum lýðsræðissamfélögum. Á þennan hátt er líðandi stund honum hliðholl þótt þegar til lengri tíma er litið snúist sagan vonandi gegn honum.

Kaldhæðni Kremlverja er takmarkalaus. Daginn eftir að Rússar og Úkraínumenn höfðu undir forsjá SÞ gert samkomulag um að flytja mætti gífurlegar kornbirgðir Úkraínu út á heimsmarkaðinn um Svartahaf hóf rússneski herinn sprengjuárás á stóru höfnina í Odessa þaðan sem meginhluti flutningaskipanna átti að halda. Með korninu er ætlunin að draga úr hræðslu um að hungursneyð hefjist, einkum í Afríku og Asíu, í Moskvu skiptir það ráðamenn greinilega engu.

Allt sýnir þetta að ekkert er nýtt undir sólinni þegar litið er til þess hvernig ráðamenn í Moskvu umgangast alþjóðasamninga. Þar hefur ekkert breyst frá því að Sovétríkin urðu að engu. Á hugann sækir minningin um Hitler/Stalín-samninginn frá 1939 sem afmáði Pólland af landakortinu. Þannig litu tveir einræðisherrar á gildi samninga. Jafnvel orðalagið sem Pútin notar er eins og bergmál frá þessum tíma, þegar hann hafnar tilverurétti annars ríkis. Í sama anda voru ógnvekjandi órar hans um tortímingu í sjónvarpsræðunni 24. febrúar þegar árásin á Úkraínu hófst. Þar var um að ræða stefnumót við það versta sem 20. öldin hafði að bjóða.

Nýja Rússland er alþjóðlegt úrhrak sem ekki verður unnt að gera við alþjóðasamninga til margra ára litið. Ráðslag Pútins með rússneska jarðgasið í gegnum leiðsluna Nord Stream 1 er annað óþægilegt dæmi. Hvernig hann nýtir banatilræði, launmorð og fjölþátta stríð gegn öðrum löndum hefur horfið dálítið í skuggann eftir að hann hóf árásarstríð sitt í Evrópu en er einnig hluti af heildarmyndinni. Rússar ættu að hafa sett sig alþjóðlega úr leik um einhverra kynslóða skeið, tímann sem það tekur Kremlverja að öðlast fyrirgefningu á stríðsglæpunum í Úkraínu.

Nú hefur stríð staðið í meira en fimm mánuði í Úkraínu en við megum þó alls ekki venjast því. Það má ekki verða hluti daglegs lífs. Stríðið má ekki gleymast og alls ekki má þagga það niður. Við getum ekki leyft okkur það – ekki vegna okkar sjálfra og því síður vegna hugrakka fólksins í Úkraínu. Þau berjast einnig fyrir okkur. Barátta þeirra er okkar barátta.

Rússar mega ekki sigra. Úkraínumenn verða og skulu sigra.

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …